Skírnir - 01.01.1975, Side 73
SKÍRNIR
SEINT BORGUÐ KIÐIN
71
Á síðustu stundum ævi sinnar drepur Maurhildur íóstra sinn og
eiginmann og gerir sér gott af. Einnig gerir hún gerningaveður að
Þorsteini á sjó. Hann kemst þó af, og er hann kemur upp í fjöruna,
þar sem Maurhildur er fyrir uppi á kletti, dregur ský frá tungli og
hann verður hennar var. Hann kemst óséður aftur fyrir hana og
ætlar að sæta lagi að vega hana. Þá er sviðsmyndin:
Tröllkonan með höfuð eiginmanns síns við munn sér að naga
af því holdið, um leið og hún er slegin hanahögg.
Varla getur hjá því farið að þetta sé sama mynd og í lokaatriði AT
248: myndin af illvirkja með höfuð fórnarlambs síns við munn sér,
að éta það, á þeirri stundu sem hann er drepinn. En aðstæðum og
aðiljum er breytt. Þetta er sviðsmyndarlíking fremur en söguefnis-
líking. Lokasvið dýrasögunnar hefur verið höfundi Sögunnar af
Kiða-Þorbirni minnisstætt, og hann hefur flutt frumdrætti þess yf-
ir á lokasvið sögu sinnar. Hér má minna á svipað lokaatriði í hinu
dýraævintýrinu sem fram kemur sem mannasaga á Islandi, Neyttu
meðan á nefinu stendur.
Þessi tvö atriði styrkja það sem áður var fundið um upptök efnis-
ins.
Mannát Maurhildar ljær sögunni töluvert af hryllikrafti hennar. í
samhandi við líflátssviðið sem nú var rætt má að lokum láta sér
detta í hug hvernig höfundi kynni að hafa hugkvæmzt að beita því
í frásögninni. Grundvallarbreyting hans á efninu er mennskunin,
og þar gæti svarið verið að finna. Ekillinn reyndi að éta fuglinn
lifandi, og um leið og fuglinn varð maður, hlaut hugmyndin um
mannát að vakna. Þessi skýring er þó engan veginn nauðsynleg.
Mannát óvætta í sögum er svo algengt, að sögumanni gat vel dottið
í hug að nota það í hryllisögu, án þess að hafa fengið hugmyndina
á þennan hátt.
1 Einar Olafur Sveinsson, Verzeichnis islandischer Marchenvarianten (Folk-
lore Fellows Communications nr. 83, Helsinki 1929), bls. 1.
2 I Verzeichnis stendur nr. 166 í stað 160, og mun það vera prentvilla.
3 Þetta er sagan af Gný. Verzeichnis vísar aðeins til hennar í tveimur hand-
ritum í Árnasafni í Kaupmannahöfn. Mun fleiri handrit sögunnar eru varð-
veitt á íslandi, og ortar hafa verið út af henni a. m. k. tvennar rímur. Sjá
Rímnatal Finns Sigmundssonar.