Skírnir - 01.01.1975, Page 105
SKÍRNIK
KVENLYSINGAR OG RAUNSÆI
103
skrípamynd.23 Hlutverkaskipti er gott ráð í vitundarvakningu til að
afhjúpa hina raunverulegu stöðu kynja í þjóðfélaginu. En það sem
hefur komið fyrir Pétur og lesendur eiga að vorkenna honum, er
að hann hefur orðið að lifa við sömu þj óðfélagslegu stöðu og kon-
um bókarinnar er úthlutað án minnstu samúðar.
VI
Sú hugmyndafræði sem gegnsýrir Gunnar og Kjartan og er jafn-
framt þema sögunnar, er hugmyndafræði karlmennskunnar. Hug-
rekki og hugleysi eru lykilhugtök í umræðunni um að vera maður,
og einnig mælikvarði á gildi einstaklingsins. Þegar Kjartan spyr
sjálfan sig, hvort hann sé „maður“ til að vera með Ingu (2:46-47),
á hann við hvort hann hafi hugrekki til þess:
Hún fyrirleit hann, það var hann viss um. Þvert oní það sem hún hafði sagt
þarna um nóttina, þá fyrirleit hún hann fyrir aumingjaskapinn. Henni fannst
hann lítilmótlegur. Henni fannst hann ræfill. Gunga! ... Svona lítilmenni sem
þorði ekki einusinni að láta sjá sig með henni útá götu. Sem skalf af hræðslu
við að hann lækkaði í áliti hjá einhverjum. Og skiljanlega vildi hún ekki sjá
hann! Skiljanlega! í hennar sporum mundi hann hata þennan vesaling. (2:63-
64)
Sá höfuðvandi sem hæði Gunnar og Kjartan hafa við að glíma
er þolraun karlmennskunnar í ýmsum myndum. Einkum þurfa þeir
á karlmennsku að halda til að geta horfzt í augu við lífið, og það
gera þeir báðir í sögulok, hvor með sínu móti. Hlutverk kvenna er
að stuðla að mynd karlmennskunnar, og það gera þær óspart með
því að vera ógagnrýnir aðdáendur þeirra og þiggjendur. Sjálfir
stuðla þeir að karlmennskumynd sinni með gagnkvæmum hrósyrð-
um og/eða brýningum:
En mér finnst að þú ættir að viðurkenna það fyrir sjálfum þér, að þú hleypur
vesturá ísafjörð af hræðslu og hugleysi. Mér finnst líka að þú ættir að hætta
við það og reyna að takast á við raunveruleikann í kringum þig. Þú þarft ekki
miklu að kvíða. Þú hefur ótvíræða hæfileika. (2:235)
Þessi spurning um karlmennsku og kjark kemur fyrir svo til á
hverri blaðsíðu bókarinnar, og kaflinn „Undantekningin og reglan“
er helgaður henni. Þar segir Gunnar Kjartani dæmisögu um mann
sem þorði að gera það rétta, þótt hann væri kallaður bæði „hug-
laus“ og „skræfa“: