Skírnir - 01.01.1975, Page 171
SKÍRNIR MÁLFAR BLAÐA OG ÚTVARPS 169
ast í ei, í og au, vegna þess að þar er breytingin ekki orðin algjör.
Ég álít vafasamt að menn segi t. d. fremur Eingland en England,
fíngur fremur en fingur eða laungum fremur en löngum. Þess vegna
er enn hægt að hafa áhrif á þann framburð. Hinsvegar hlýtur að
koma að því að farið verði að rita á og ú á undan ng og nk, t. d.
lángur, úngur, hánki og dúnkur þó að hinn framburðurinn haldist
enn hjá fullorðnu fólki í vissum landshluta. Annars staðar er breyt-
ingin orðin svo algjör að ekki verður aftur snúið, enda er sú breyt-
ing miklu minni röskun á sérhljóðakerfinu heldur en ef hin sér-
hljóðin (e, i, ö) fylgdu á eftir og breyttust í ei, í, au. Þá tel ég óhjá-
kvæmilegt að taka upp markvísa kennslu í framburði hv ef á að
varðveita þann rithátt en láta ekki kv koma í staðinn. Onnur atriði
tel ég ekki skipta eins miklu máli. Ég geri ekki upp á milli hins radd-
aða framburðar samhljóða á Norðurlandi og hins óraddaða á Suð-
urlandi og vil gjarnan að sá munur haldist. Skýr framburður er svo
að sjálfsögðu fyrsta boðorðið eins og skýrt og ótvírætt orðaval.
I því sem hér fer á eftir ræði ég eingöngu það sem ég tel ranga
málnotkun svo sem brot á viðurkenndum málfræðireglum, málfá-
tækt og einhæfni í orðavali, ranga notkun orðtaka, ensk og dönsk
málsáhrif - og þá að sjálfsögðu einkum miður holl - svo og ýmiss
konar annan málruglanda. Ég læt lesendum eftir að draga ályktanir
af þessum athugunum. En ég hygg að enginn gangi þess dulinn að
dagblöð, útvarp og sjónvarp hafa gífurleg áhrif á daglegt málfar
svo og málþróunina yfirleitt. Þess vegna er ákaflega nauðsynlegt að
þeir fjölmiðlar vandi málfar sitt og þar sé valinn maður í hverju
rúmi. Ég tel engum vafa undirorpið að íslenskunni stafi nú mest
hætta af enskum málsáhrifum. Þau áhrif koma einkum með miður
góðum þýðingum. Þeirra gætir ekki aðeins í þýðingunum sjálfum
heldur hafa þýðingarnar áhrif á annað málfar. Þess vegna er nauð-
synlegt að vanda þýðingar enn betur en gert er.
Sumum þykir ef til vill að hér gæti nokkuð mikillar íhaldssemi,
ég ræði eingöngu um varðveislu þess sem við höfum. En þessari rit-
smíð er nú einu sinni þessi stakkur skorinn. Það er svo annað mál
að ræða nýjungar í málþróun, nýyrðasmíð og hagnýt tökuorð. En
stofninn verður að vera styrkur ef hann á að geta skotið lífvænum
sprotum. Að öðru leyti læt ég það sem hér fer á eftir tala sínu máli.