Skírnir - 01.01.1975, Síða 172
170
HELGI J. HALLDÓRSSON
SKÍRNIR
1. Brot gegn viðurkenndum málfrœðireglum
a) Nafnorð. I útvarpinu var talað um Árvak og Árvaksmenn.
Árvakur mun eiga að beygjast eins og akur. Orðið kemur fyrir á
tveimur stöðum í Snorra-Eddu og einnig á tveimur stöðum í Sæ-
mundar-Eddu. Þar er eignarfallið Árvakurs. Ruglað er saman orð-
unum grunn (hk.) og grunnur (kk.). Gata er nefnd Selvogsgrunnur
en ekki Selvogsgrunn (fiskimið) eins og hún heitir. ..Lausar stöður
hjúkrunarkona.“ Þarna er verið að auglýsa eftir hjúkrunarkonum
svo að fyrirsögnin hlýtur að eiga að vera: Lausar stöður hjúkrunar-
kvenna. „Einn mánuð á ári tekur hann sér frí og fer lungað úr hon-
um í námskeið vegna kennslustarfans og við stundatöflugerð.“ Hér
ætti að standa: og fer lunginn úr honum, þ. e. kjarninn. Lungi er
kk., vb. Oft heyrist sagt og sést ritað að lifa eins og blóm í eggi. En
það er auðvitað ekkert hlóm í egginu heldur blómi, kk„ vb., þ. e.
rauðan. Einnig segja menn stundum og rita að fá leið á einhverju í
stað þess að fá leiða. Leiði (kk., vb.) er annað en leið (kvk., sh).
Að eiga annars úrkosta (fyrir að eiga annars úrkosti). Sögnin að
eiga stýrir þolfalli (úrkosti), en eignarfallið (annars) stýrist af
nafnorðinu. Áhrif frá að eiga annarra kosta völ.
Á sínum tíma var mikið tíðkað að hafa nafnorðseinkunnir ó-
beygðar. Björn Guðfinnsson réðst gegn þeirri venju og sést slíkt nú
sjaldan. Þó bregður því enn fyrir. I dagblaði var talað um formann
Verkakvennafélagsins Snót í Vestmannaeyjum. Eðlilegra hefði ver-
ið að tala um formann Verkakvennafélagsins Snótar.
Heldur virðist færast í vöxt að menn noti í fleirtölu orð sem að-
eins hafa verið notuð í eintölu. Eru þetta einkum hugmyndaheiti,
efnis- og verknaðarheiti. Ég nefni þessi dæmi: amar, til mikilla ama,
áburðir, fegurðir, félagsskapir, krampar, kol, þagga niður alla
gagnrýni með líflátum, flytja . . . dýra ránsfengi, kenni öll sund,
tískur, ekki innifalið í ofangreindum verðum, langar þróanir, að
ógleymdum morgunköffunum hans Páls Heiðars. Við opnun mynd-
listarsýningar að Kjarvalsstöðum var talað um marga smekki. Eðli-
legra hefði verið að tala um margs konar smekk. Smekkur fólks er
margvíslegur. Sé orðið smekkur notað í fleirtölu verður hann að
slefuspeldi ungbarna. Þetta er gott dæmi um muninn á huglægri og
hlutlægri merkingu orðs. Mörg fleiri dæmi mætti vafalaust nefna.