Skírnir - 01.01.1975, Page 173
SKÍRNIR
MÁLFAR BLAÐA OG ÚTVARPS
171
En til umhugsunar þessu viðvíkjandi skal ég nefna tvennt: í fornu
máli er að finna allmörg orð í fleirtölu sem eru ekki almennt notuð
svo nú. Snorri Sturluson lætur Þjálfa renna í köpp við Huga, eða
réttara sagt: Útgarða-Loki lætur Huga renna í köpp við Þjálfa. Nú
er kapp eitt þeirra huglægu orða sem við notum nú aðeins í eintölu.
Þá er malt í fornu máli notað í fleirtölu - mölt, en það er efnisheiti.
í Fyrstu málfræðiritgerðinni í Snorra-Eddu stendur: „Eigi eru öl
öll að einu.“ Það er: Eigi eru öll öl eins. Og er þá nokkur furða þó
Halldór Laxness segi: „og vínin drakk í margri ljótri kró“?
I skýrslugerð nú á dögum er oft óhj ákvæmilegt að beita fleirtölu
eftir þörfum. Sá, sem lendir oft í árekstri, fær bókuð á sig mörg
tjón - ekki aðeins margs konar tjón - og hjá öllum tryggingafélög-
um eru sérstakar tjónadeildir. - Hvað urðu margir hjónaskilnaðir
í ár? Ég veit það ekki, en það er hægt að sjá það í einhverjum
skýrslum. Og í skýrslum þykir nauðsynlegt að reikna út margs kon-
ar meðaltöl.
Stundum er farið skakkt með fleirtöluorð. I viðtali í sjónvarpinu
var talað um fjóra tónleika en ekki ferna eins og vera ber. Þá lét
fréttamaður svo um mælt að barist hafi verið á tveimur vígstöðvum
en ekki tvennum eins og segja skal þar sem orðið er aðeins notað í
fleirtölu í þessari merkingu.
1 málvöndunarpistli, sem Helgi Hálfdanarson skrifaði í Morgun-
blaðið 28. febrúar 1973, finnur hann að því að auglýstir séu „fjög-
urra og tveggja dyra bílar, rétt eins og bíll geti haft sína dyrina
hvorum megin.“ Helgi vill sjálfsagt láta tala um bíla með tvennar og
fernar dyr þar sem dyr er fleirtöluorð. Þetta er svolitlum vand-
kvæðum bundið, en ekki nefnir Helgi hvernig heri að leysa þann
vanda.
Arnþór Helgason er búinn að leysa þann vanda. Hann notar lýs-
ingarorðin tvídyrður, fjórdyrður o. s. frv. Ekki hefur Arnþór húið
þessi lýsingarorð til. í Eyrbyggju segir: „Þeir Þóroddur gengu eftir
endilöngum setskála, er hann var tvídyrður.“ Þarna hefur Arnþór
fundið það sem ýmsum hefur sést yfir þótt betri teljist hafa sjónina.
Ekki veit ég hvernig mönnum líst á að endurlífga þessi fornu lýsing-
arorð. Mönnum kann að virðast þau stirð í munni. En ég er ekki
fjarri því að þau liðkist við notkun.
b) Fornöfn. Oft er farið skakkt með fornöfnin sinn hver, enda