Skírnir - 01.01.1975, Page 211
SKÍRNIR FJÖLNISMENN OG ÞJÓÐARSAGAN 209
frestunarinnar. Ekki er hér heldur reynt að hagga þar við neinu.
Ég vildi annars í þessu sambandi minna á hréf Jóns Sigurðssonar
frá 13. maí 1850 til Páls Melsteðs amtmanns, en hluti þess er birt-
ur hér í hók (bls. 282-283); í heild er það að finna í Bréfum Jóns
Sigurðssonar - úrvali - Reykjavík 1911, bls. 155-157.
Það kann að vera fært í stílinn, sem einhvern tíma var sagt, en
sannleiksvottur held ég leynist þó í því ærinn: Þegar stjórn rýkur
upp og eflir lögreglulið sitt, þá er einkum tvennt til; annaðhvort
hefur hún þegar aðhafzt einhverja ósvinnu gagnvart landi og þjóð
eða hún er rétt í þann veginn að ráðast í slík stórræði. Þetta mætti
hafa í huga þegar lesið er um bollaleggingar dönsku stjórnarinnar
um Island vorið 1850 (bls. 283 og áfram).
Vel finnst mér fara á haustsvip þeim sem færist yfir persónur og
atburði sögu þessarar undir lokin. Samtímis því sem síðustu sand-
kornin eru að renna úr stundaglasi Brynjólfs, eru þær frjálslyndu
hreyfingar sem hann hreifst af í æsku og varð aldrei með öllu af-
huga, sem óðast að lúta í lægra haldi fyrir þungum höggum and-
skota sinna, ráðandi valdastétta sem Brynjólfur hafði ráðizt undir
áraburð lijá, hvort sem hann liefur gert sér þess ljósa grein eður ei.
Og vinir Brynjólfs og jafnaldrar í hópi konunglegra embættis-
manna, Pétur bróðir hans í broddi fylkingar, eru þá sem óðast að
kalkast í öllum andlegum liðamótum, þótt þeir eignuðu þann gang
mála ekki hrörnun, heldur auknum sálarþroska, þekkingu og mann-
viti.
Mér finnst forsjónin þrátt fyrir allt hafa verið Brynjólfi náðug,
þegar hún Ieysti hann undan þeirri þungu byrði sem lífið hlýtur að
hafa verið orðið honum. Þá var honum síðasta áfangann hlíft við
stærri ósigrum en þeim að vera felldur frá forsetatign í Hafnardeild
Hins íslenzka hókmenntafélags.
(Ræðan er hér nokkuð stytt frá því sem flutt var við doktorsvörnina.)
14