Skírnir - 01.01.1975, Blaðsíða 213
SKÍRNIR
RITDOMAR
211
Fyrstu ritgerSir þessa bindis fjalla að ýmsu leyti um landiS og sögu þess.
Eru þær eftir náttúrufræSinga. A síSustu og verstu mengunartímum þykir nú-
tímalegt og áhugavert aS fjalla um umhverfi og vistfræði, og svo er fordæmi
til í Nýrri Islandssögu eftir Björn Þorsteinsson frá 1966 að ræða náttúru
landsins í byrjun. Mér virðist sem grein Þorleifs Einarssonar um jarðsögu
landsins sé mjög greinargott ágrip, ég er ekki jarðfræðingur en mér virðist þó
að nokkur ný atriði komi þarna fram miðað við Jarðfrœði Þorleifs frá 1968.
Víða er komið við í grein Sigurðar Þórarinssonar um „Sambúð lands og lýðs
í ellefu aldir“. Sigurður ræðir loftslag og loftslagsbreytingar, jökla, gróður og
jarðveg, eldvirkni, jarðskjálfta og aðrar náttúruhamfarir.
ÞaS kernur fram í aðfaiarorðum Sigurðar að hann gerir sér grein fyrir að
náttúrufræðilegar skýringar á sögulegum fyrirbærum geti einar sér orðið ein-
strengingslegar og ósennilegar. Sigurður álítur að taka beri þó fullt tillit til
slíkra skýringa og er ekkert við því að segja. Hann ætti þó að rökstyðja mál
sitt frekar þegar hann fullyrðir að saga íslendinga þarfnist „fleiri náttúru-
fræðilegra skýringa, ekki sízt jarðfræði- og landfræðilegra, en saga flestra
annarra þjóða“ (bls. 30).
Sigurður ræðir loftslag fyrr á öldum og birtir línurit eftir sjálfan sig og
aðra um hitafar á íslandi. Þessi leikur að tölum verður varasamur þegar hugs-
að er til þess hve heimildir á bak við þær sumar eru léttvægar. ÞaS verður að
teljast galli á framsetningu SigurSar að hann skuli ekki skýrt og skorinort
gera grein fyrir því hve tilgátukennt, og þess vegna hugsanlega alrangt, margt
er í línuritum hans. Enginn efast þó um að loftslag hafi áhrif á lífsafkomu
dýra og jurta. SigurSur telur aS loftslagsbreytingar hafi átt drjúgan þátt í því
að hætt var að rækta korn á Islandi. Um það er ógerningur að fullyrSa þar
sem nákvæmar heimildir um loftslag skortir. Hinsvegar eru til órækar heim-
ildir um landbúnaðarkreppu og verðfall á korni í Evrópu á síðmiðöldum eins
og m. a. þýski landbúnaSarsögufræðingurinn Wilhelm Abel hefur bent á. Virð-
ist það ekki óeðlilegri skýring á lokum kornræktar en hugsanleg loftslags-
breyting.
Um jökla hefur Sigurður margt athyglisvert að segja, en sem fyrr efast ég
um áreiðanleik sumra heimilda hans. Hversu nákvæm eru kort þau sem hann
hefur notað við gerð korts á bls. 44, samkvæmt skýringartexta eru þau frá
1761, 1844 og 1901, og eru þau sambærileg?
Sigurður ræðir því næst um jarðveg og gróður og kemur svo að sínu höfuð-
efni, ef svo mætti að orði komast: „Eldvirkni á Islandi í ellefu aldir.“ Enn
sem fyrr er meðferð Sigurðar á sögulegum heimildum ekki annmarkalaus.
Þrátt fyrir mikinn fróðleik og áhuga á viðfangsefninu sem hlýtur að hrífa les-
andann skýtur upp kollinum samsetningur eins og þessi: „„Þar var bærinn sem
nú er borgin“, segir í Landnámu, og benda jarðfræðilegar athuganir til, að
rétt sé.“ (bls. 57-8). Hvernig jarðfræðilegar athuganir hafa getað bent á stað-
setningu þessa sagnabæjar hlýtur að vera mönnum nokkur ráðgáta, ekki síst ef
bæjarstæðið á að hafa verið þar sem hraunkvika hefur ollið upp um gíg. Þessi
kafli Sigurðar er annars sá langskemmtilegasti í grein hans; hér er margan