Skírnir - 01.01.1975, Page 224
222
RITDÓMAK
SKIRNIK
ari og ef til vill munu einhverjir finna hér atriði sem þeir eru ekki alveg sam-
mála. En ætla má að þetta sé ein besta alþýðlega inngangslesningin sem nú er
til um íslenskar bókmenntir til foma.
Grein Björns Th. Björnssonar um myndlist er ekki mikil að vöxtum. Hún er
mjög myndskreytt eins og reyndar hæfir efninu. Texti hennar er því stuttur
og minnir næstum á sýningarskrártexta. Höfundur hefur þó dregið saman
talsverðan fróðleik um myndlist á miðöldum úr fornum ritum. Nokkur ljóður
á myndskreytingum með grein þessari er að ekki skuli stærð eða mælikvarði
hinna einstöku mynda vera nefndur í skýringatextunum. Jafnvel hefðu mátt
vera stærri myndir af sumum þeim listaverkum sem þarna eru sýnd, t. d. af
Valþjófsstaðarhurðinni.
Björn heldur því mjög til streitu að smálíkneskin frá Fossi og Baldursheimi
séu goðamyndir (bls. 263-264), svo mjög að varla eru varnaglar slegnir. Það
er nefnilega ekkert víst að smámyndir þessar séu af heiðnum goðum. Þessa
varnaglaleysis verður vart víðar í greininni, en vissulega er hér mörgu varp-
að fram og sumu hverju nýstárlegu.
Það er galli á þessari grein hve stutt hún er. Ef hún væri lengri hefði ef
til vill verið unnt að tengja myndlistarsöguna nánar almennri menningarsögu
og útlista og rökstyðja ýmislegt sem á er minnst.
Hallgrímur Helgason ritar um upphaf íslenskrar tónmenntasögu. Það vek-
ur athygli að engan veginn er unnt að sýna fram á að þau lög sem tilfærð eru
í greininni hafi verið sungin á þjóðveldisöld. Spurningin er þá hvort þessi
grein hefði ekki hæft betur síðari bindum Sögu Islands og þá með meiru um
tónmenntir á Islandi.
Stórt er nafnið á síðustu grein bókarinnar, „Almennir þjóðhættir“, eftir
Árna Björnsson. Þó fjallar greinin aðeins um mat og mataræði, klæðnað, í-
þróttir og leika og hátíðahald og samkomur. Auðvitað er þetta aðeins lítill
hluti almennra þjóðhátta. Hér er reynt að tína til nokkur meginatriði um of-
angreinda efnisflokka, og það er gert með þeim hætti að greinin er aðlaðandi
lesning, skrifuð af kankvísum húmor.
ÁSur er minnst á að efnisúrval Sögu Islands virðist talsvert tilviljunarkennt.
Klifað er á vissum atriðum í fleiri en einni grein, en önnur atriði vantar al-
veg. Greinarnar eru ekki nægilega samræmdar. Heildarferli Islandssögunnar
verða ekki ljós að neinu marki í tveimur fyrstu bindunum.
Enn eiga eftir að koma út nokkur bindi af þessu söguriti. Það ráð sem ég
vildi helst koma á framfæri við ritstjóra og ritstjórn verksins er að grípa til
harðari ritskoðunar, meiri samræmingar og spurninga til greinahöfunda um
óskýr atriði greina þeirra. Þótt ekki verði bætt um þjóðveldistímann í Sögu
Islands tekst vonandi betur til með síðari aldir.
Sveinbjörn Rafnsson