Skírnir - 01.01.1975, Page 229
SKÍRNIR
RITDOMAR
227
„himnasjóli“. Forðazt er að nota einfaldar sagnir eins og að „vita“ eða „geta“,
en í stað þeirra umskrifað með „að vera kunnugt um“, „vera einhvers meðvit-
andi“ eða „vera einhvers megnugur", „vera fær um“ o. s. frv. Nokkuð ber og á
óeðlilegri orðaröð í stíl við „Eigi gætir þú með sanni sagt“, „munu ei lengur
blómsveigum prýdd verða“. Allt þetta stuðlar að því að gera þýðinguna bók-
málskennda og fjarri því lifandi tungutaki sem leiksviöinu hæfir.
En það er sízt sanngjarnt gagnvart Evrípídesi að bendla hann við hljómlítið
bókmál, því ein af hans sterku hliðum er leikni í þeirri mælskulist sem svo
mjög var iðkuð á hans dögum af sófistunum frægu. Þessi mælskulist kemur
einna bezt fram í hinum löngu formálum sem hann hefur oftast verk sín með,
gjarna af vörum einhvers guðs, svo sem Apollóns í Alkestis og Afródítu í
Hippólýtosi eða þar sem rökræður eru háðar. Sé þessarar mælskulistar ekki
gætt verða þessar ræður harla langdregnar og geta orkað eins og tilbreytingar-
laus upptalning eins og síðast í formálanum að Alkestisi þar sem röð af setn-
ingum byrjar á sama hátt: „Er hún að gefa ... Er það örlagadómur ... Hverf
ég nú ... Sé ég að Dauði ... Er hann reiðubúinn." Eitt skýrasta dæmið um
mælskulist Evrípídesar er upphaf Medeiu - þótt það sé annars léttvægt fundið
í Froskum Aristófanesar - þar sem forsagan er sögð í þrem samhliöa setning-
um sem hefjast á „ef aðeins Argó ekki ... og ekki ... og ekki ... þá hefði
ekki ...“ og mynda magnaða og samþjappaða stígandi. Á íslenzkunni verður
þessi málsgrein aftur þvogluleg og spennulítil. Fleira mætti tína til hjá Evrí-
pídesi sem flokkast undir tæknibrögð svo sem stuðlun, til dæmis þegar Medeia
fylgir eftir reiðilestri sínum yfir Jasoni með blísturshljóðum og blæstri (lína
476): „Esosa s‘, hos isasin Hellenon hosoi...“. Slík dæmi eiga að sýna að
margs ber að gæta annars en orðavals þar eð sjálfur hljómur og bygging setn-
inganna skipta engu minna máli hjá Evrípídesi.
En það sem kemur Aristótelesi til að láta þau orð falla um Evrípídes að
hann sé „tragikotatos“ eða „mest sorgarskáld“ allra eru að sjálfsögðu ekki
tæknibrögð hans sem slík heldur skáldlegur hæfileiki hans til að kafa djúpt
í huga og hjörtu fólks sem er á valdi hinna mestu geöshræringa, svo sem hins
sorgbitna Admetosar, hinnar hefndarþyrstu Medeiu og hinnar ástsjúku Faidru.
Evrípídes getur sýnt okkur þetta fólk ljóslifandi með því að láta það taka sér
í munn þau orð sem hæfa geðshræringum þess og fella þau á áhrifamikinn
hátt inn í hina bundnu hrynjandi. í þessu verður þýðandinn að fylgja skáld-
inu eftir því miklu skiptir auðvitað að átakanlegustu hlutar þessara verka njóti
sín. Ef við því viljum kanna síðustu orðræðu Medeiu áður en hún gengur út
af sviðinu til þess voöaverks að drepa börnin sín þá tekur hún svo til orða
í íslenzku þýðingunni: „Það er óumflýjanleg nauðsyn að þau verði af lífi tek-
in. Ekki dugar að hika þegar vinna skal voðalegt ódæði sem eigi verður undan
skorazt að drýgja." Síðar í leiknum þegar Jason kemur að líkum sona sinna
er hann látinn segja meðal annars: „... og þungir harmar hafa gleði mína
að engu gert. Eigi mun ég í lifanda lífi framar eiga þess kost að skipta oröum
við sonu mína er ég átti og fóstraði umhyggjusamlega." Hér er erfitt að verj-
ast þeirri spumingu hvort nokkur leið sé að finna til vorkunnar með fólki sem