Skírnir - 01.01.1979, Side 25
SKÍRNIR
FÁEIN ALÞÝÐLEG ORÐ
23
hann andmælir þeirri firru, — sem mér finnst vera, — að hér
hafi land verið fjölbyggt af írum, þegar Norðmenn fluttust
hingað. — Að vísu benda mannfræðirannsóknir nútímans til
þess að á íslandi sé meira en lítil írsk blóðblöndun. En íslenskar
heimildir greina einmitt frá fjölda landnámsmanna, er hingað
voru komnir frá Bretlandseyjum. Nokkrir þar upprunnir, eða
konur þeirra. Og hvað þá um fylgdarlið þessara manna, frjálst
sem ófrjálst? — En ef írar hefðu í marga mannsaldra verið búnir
að eiga hér einskonar systurþjóð, hefði þess hlotið að sjást merki
í sagnaritum þeirra, svo sem mér skilst að Laxness inni að. —
En í þessum ritgerðum eru líka, eins og minnst var á, ýmsir
staðir, sem mér virðast furðulegir og ekki trúlegir, þrátt fyrir
allt það skrúð lystilegra stílbragða, sem þeim er búið. Hér skal
þó ekki freistað að tilfæra það nánar, utan eina málsgrein, sem
eg get ekki stillt mig um að minnast á. Mér finnst hún svo
ómakleg. — Þá málsgrein er ekki að finna í neinni þeirra rit-
gerða, sem eingöngu fjalla um söguleg efni, heldur í áramóta-
grein, sem skáldið birti í dagblaði fyrir nokkrum árum, og er
þar komið víða við. Um flest er hún hin ágætasta og mun að
ýmsu leyti þörf hugvekja. Þar er meðal annars kveðið svo að
orði:
Mart bendir til þess að fólk er hér settist að hafi litið á náttúru Islands
eins og bráð sem búið var að hremma.
Þetta eru hörð orð, en ekki veit eg hvort fært er að andmæla
þeim. Mönnunum hefur löngum verið gjarnt að sýna tillitsleysi
og giimmd í skiptum við hina lifandi náttúru, dýr og gróður
og eru um það næg ömurleg dæmi, — líklega aldrei verri en nú,
þegar menn hafa tröllskap tækninnar að styðjast við. Og það
eru, því miður, litlar líkur til að forfeður okkar hafi farið hóf-
legar að en hverjir aðrir, þegar þeir komu hingað um langan
veg að ónumdu landi. —
En skáldið lætur hér ekki staðar numið, hann heldur áfram:
Skynbragð á fegurð lands var ekki til hjá þessu fólki. Slfkt kom ekki til
skjalanna fyren þúsund árum eftir að hingað barst fólk.
Þetta hygg eg að sé allnærri því að vera öfugmæli, nema þá
að einvörðungu sé við það miðað að langdregnar og nákvæmar