Skírnir - 01.01.1979, Síða 27
SKÍRNIR
FÁEIN ALÞÝÐLEG ORÐ
25
Raunar er sú kenning þannig að gagnvart henni skortir orð,
maður verður ruglaður og dofinn, — það er líkast martröð. Eða
hvernig í ósköpunum er hægt að skilja það, að tuttugustualdar-
maður, hversu gáfaður og lærður sem hann er, geti vitað upp
úr þurru og án nýrra heimilda, að rangt sé farið með nokk-
urn hluta íslenskra bæjarnafna og örnefna, annaðhvort vegna
gleymsku eða einhverskonar fölsunar, sem hafi átt sér stað
endur fyrir löngu? — Og svo þurfi hann ekki annað en að litast
um — þá stígi upphaflega nafnið fram úr sjö eða átta alda djúpi
og birtist honum.
Hér í þessari grein hefur af heilum hug verið lofuð snilld
þeirra manna, sem í öndverðu skópu landinu bæjarnöfn og ör-
nefni. Allir, sem nokkuð þekkja til, vita að þau nöfn eru að
miklum meiri hluta „náttúrunöfn", dregin af landslagi, stað-
háttum eða náttúrufari. En fjölbreytni íslenskrar tungu og ís-
lenskrar sögu er meiri en svo að þarna sé aldrei út af brugðið,
annar strengur liggur jafnhliða í hinni miklu móðu íslenskra
nafngifta, þar er sagan ráðandi og að nokkru leyti þjóðhættir. —
Svo mun alla tíð verið hafa.
Ekki get eg státað af því, að hafa hlýtt á þá fyrirlestra, sem
höfundur kenningarinnar, prófessor Þórhallur Vilmundarson,
flutti á sínum tíma henni til kynningar og framdráttar, en lítið
eitt hef eg séð af því sem hann liefur um þetta ritað og ekki
síst mjög athyglisverðar tilvitnanir annarra í skrif hans og fyrir-
lestra. Og eg hef hlustað á útvarpsviðtöl, sem fréttamenn hafa
átt við prófessorinn. Það var í slíku viðtali, sem eg heyrði hann
segja frá því að hann liefði fyrst fengið þessa hugmynd vegna
ritháttar í fornu handriti, þar sem nafnið Geirshólmur (eða
-hólmi) í Hvalfirði, væri ritað Geirhólmur, s-laust, sem benti til
þess að hólmurinn drægi nafn sitt af lögun sinni, en ekki manns-
nafninu Geir. (Eftir þessu er hólmurinn spjótlaga, en að sjá frá
þjóðveginum sýnist hann nær kringlóttur.) En eg get ómögu-
lega skilið að þetta eina dæmi sé nein algild sönnun, ef brott-
fall s-ins er þá nokkuð annað en ritkækur, eða jafnvel ritvilla,
og mætti þá segja að sú villa væri farin að draga dilk á eftir
sér. — Eg heyrði prófessorinn einnig segja frá því, eins og til
dæmis, að hann hefði komið á bæinn Hjaltastaði, sem honum