Skírnir - 01.01.1979, Síða 33
SKÍRNlR
FÁEIN ALÞÝÐLEG ORÐ
31
eg fullviss, að svona tilgáta hefði þótt mun síðri latína, ef
óbreyttur alþýðumaður hefði komið fram með hana.
Eg geri ráð fyrir, að hinar breyttu skoðanir fræðimanna á
sannindum fornritanna hafi framan af einkum beinst að sjálf-
um íslendingasögunum, og þá ekki síst vegna fjarlægðar í tíma
milli atburða og ritunar. Það er vissulega skiljanlegt sjónarmið,
jafnvel þó að „sagnfestukenningin“ kynni að vera eitthvað nær
sanni en talið hefur verið nú um sinn. — En það er eins og
ekki hafi reynst fært að stöðva sig, æ fleira er vefengt og að
engu liaft. Samanber ummæli Björns Þorsteinssonar, sem tilfærð
eru hér að framan. Og nú eru það ekki aðeins „sögurnar", sem
eiga hlut að máli, heldur einnig bækur, sem auðsjáanlega hafa
verið samdar sem fræðslurit eftir þeim heimildum, sem bestar
fengist gátu. Á eg þar hvað helst við Landnámu, sem ásamt
íslendingabók mun lengstum hafa verið talin grundvöllur ís-
lenskrar sögu. En á þeirri bók, Landnámu, hefur síðustu árin
skollið mikill flaumur renginga af hálfu fræðimanna svo upp
hafa komið heil kenningakerfi til að ómerkja hana sem heim-
ildarrit. Hinni undarlegu náttúrunafnakenningu er mjög gegn
Landnámu stefnt og hélt eg að varla yrði lengra gengið. En ekki
alls fyrir löngu hafði eg þó spurnir af því, að vegið hefði verið
að bókinni úr annarri átt, með nokkuð öðrum hætti, en ekki
öllu vægilegar.
Maður er nefndur Sveinbjörn Rafnsson. Um hann veit eg það
eitt að hann er íslenskur menntamaður, sem tekið hefur doktors-
gráðu við háskólann í Lundi fyrir ritverk um Landnámabók.
Ekki hef eg séð það verk, en það vildi svo til, að í Skírni 1974
birtist stutt ritgerð „Markmið Landnámabókar" eftir dr. Jakob
Benediktsson, sem mun manna mest liafa rannsakað gerðir Land-
námu. Grein þessi fjallaði um doktorsrit Sveinbjarnar Rafns-
sonar, og þó að það væri nú ekki það sama og að kynnast verk-
inu sjálfu, þá sá eg þarna vikið að skoðunum, sem mér fundust
furðulegar: