Skírnir - 01.01.1979, Síða 63
SKÍRNIR REYKJAVÍK - UPPHAF HÖFUÐSTAÐAR 61
verið, að sum ár dó allt að því heill tugur fanga, og er bana-
mein þeirra nær undantekningarlaust hor eða óþrif. Jafnvel lús
er nefnd sem banamein. Skýtur þetta mjög skökku við dánar-
orsakir hjá bæjarbúum öðrum, en þær eru einkum magaveiki
og skyrbjúgur auk landfarsótta og slysa. Skyrbjúgur virðist hlut-
fallslega tíðari hjá þeim bæjarbúum, sem unnu við verzlun eða
iðnað, og kann þetta að spegla mismunandi neyzluvenjur. Frétt-
irnar um hið illa atlæti í tukthúsinu þessi ár hljóta að hafa átt
greiðan aðgang að bæjarbúum og breiðzt út um landið frá
Reykjavík, enda kvartar fangelsisstjórnin um of mikil tengsl
milli fanganna og bæjarbúa hinn 4. apríl 1806. Tekur hún fram,
að fangarnir séu óðar komnir út á götu og gefi sig á tal við veg-
farendur, ef þeir (þ.e. fangarnir) fari út til að fá sér hreint loft.
Fangelsisstjórnin leggur til, að lóð tukthússins verði girt, en á
því varð bið.
Orðrómurinn um atlætið í tukthúsinu hefur fráleitt orðið
þess valdandi, að brotamenn hafi fýst þangað og talið sig með
því öðlast trygga framfærslu hérna megin. Stofnun tukthússins
treysti Reykjavík á hinn bóginn í sessi sem þjóðlífsmiðstöð.
Tukthúsið sjálft var hin myndarlegasta bygging, sem kostað
hafði talsvert fé, og a.m.k. 1—2 embættismenn voru ráðnir að
stofnuninni.
Niðurstöður verða þessar: Nægilegt eldsneyti, góð liafnarskil-
yrði frá náttúrunni, tiltölulega góðar samgöngur og gnægð vatns
voru þeir kostir, sem tryggðu Reykjavík sess sem aðsetursstað
fyrir Innréttingarnar. Þar hófst því þéttbýlismyndun á 18. öld.
Embættisbústaðir fyrir þrjá af æðstu embættismönnum landsins
voru reistir í nágrenni bæjarins á árunum 1750—1770, og varð
Reykjavík þá samgöngumiðstöð fyrir þessi embætti, einkum við
útlönd. Fleiri embættismenn fylgdu í kjölfarið, enda höfðu þeir
liag af nábýlinu, og tryggði þetta svæðinu sess sem stjórnarset-
ur landsins. Innréttingarnar reyndust nágrenninu styrkur, enda
sóttu íbúar þess þangað vinnu og seldu þar vörur sínar. íbúum
þéttbýlishverfisins var tekið með tortryggni, og guldu þeir þar
bæði gamalla lileypidóma og lífernis síns. Eimdi lengi eftir af
þessu viðhorfi.