Skírnir - 01.01.1979, Side 68
66
LÚBVÍK KRISTJÁNSSON
SKÍRNIR
II
Sjálfstjórnarkröfur íslendinga á liendur Dönum reisti Jón Sig-
urðsson alla tíð á sögulegum rétti þjóðarinnar, hann viður-
kenndi aldrei, að landsmenn hefðu afsalað sér þeim grunni, sem
Gamli sáttmáli hvíldi á. Ef hann rakst einhvers staðar á hald-
kvæman vott í sínum sögulegu rannsóknum, hélt hann honum
vendilega til haga í boðskap sínum. Þessa staðreynd ber ætíð að
hafa í huga, þegar leggja á mat á stjórnmálabaráttu Jóns. —
Hann sat á 13 þingum auk Þjóðfundar og var forseti á 10 þeirra,
en þá var þing ekki haldið nema annað hvort ár.
Sú hefur lengstum verið skoðun manna, að straumhörðustu
vatnaskil á stjórnmálaferli hans hafi orðið á Þjóðfundinum, og
því hafa menn hneigst til að álykta, að reisn Jóns sem stjórn-
málamanns, skjót viðbrögð hans og karlmannleg festa hafi aldrei
birst greinilegar en í þjóðfundarlokin og beinu framhaldi þeirra.
Sjálfur telur hann sér það mest til gildis, að hafa þá með að-
gerðum sínum komið í veg fyrir að ísland yrði innlimað í Dan-
mörku, eins og hann orðar það. — En skilgreining þessa atburðar
er ekki alveg eins einföld og margur hefur ætlað. Sverrir Krist-
jánsson sagnfræðingur hefur orðað þetta svo í einni af sínum
ágætu ritgerðum:
Mörgum kann að virðast, að þjóðfundarmennirnir hafi spennt bogann o£
hátt, er þeir fóru fram á svo ríkt sjálfsforræði. Ef litið er á störf Þjóðfundar-
ins frá þröngu sjónarmiði hagnýts stundarárangurs, þá voru þjóðfundarfull-
trúarnir pólitískir loftkastalasmiðir. En frá sjónarmiði íslenskrar sögu verður
þeim það ekki fullþakkað, að þeir lutu ekki ölmusunni, sem að þeim var
rétt.B
Jón Sigurðsson var þess fullviss, að með þjóðfundarkröfunum
var boginn spenntur um of, þótt honum þætti ekki hlýða að
láta menn verða þess áskynja. Honum duldist ekki, að íslend-
ingar voru eigi undir það búnir að nýta sér til hlítar þau rétt-
indi, sem fólust í kröfum þjóðfundarmanna. En með þá skoðun
hlaut hann að fara dult, og lágu til þess eðlilegar ástæður.
Gleggst má marka þessa ályktun af orðum þeim, sem Jón skrifar
einlægasta vini sínum og stuðningsmanni erlendum, Konráð
Maurer, 3. mars 1861: