Skírnir - 01.01.1979, Page 136
134 SVEINN SKORRI HÖSKULDSSON SKÍRNIR
Og þó að mér auðnist aldrei að skrifa ljóð í sundurlausu máli, sem við má
una, efast ég ekki um, að sú bókmentagrein eigi sér mikla framtíð. [-]
Óstuðluðu ljóðin ættu að eiga óbundnar hendur og víðan leikvöll sundur-
lausa málsins, og vera gagnorð, hálfkveðin og draumgjöful eins og ljóðin.
Þau eiga sér krappa leið milli skers og báru. En takist þeim að þræða hana,
verður það glæsileg sigling.99
Þremur árum síðar, eða 1922, gaf Jón Thoroddsen út bók sína
Flugur. í henni eru þrettán prósaljóð mislöng og „Formáli" er
með nokkrum rétti má líta á sem fjórtánda Ijóðið. Þar ávarpar
Jón „flugur" sínar og segir:
Þakkið þið guði fyrir, að eg færði ykkur hvorki í lífstykki rímsins né vað-
málspils sögunnar.ioo
Það lægi hendi nær að líta svo á að hér hefði ungur stúdent
hlýtt örvunarorðum eldra lærdómsmanns og skálds og freistað
sín við skáldskap í nýju formi.
Svo er þó ekki. Fyrir því eru óyggjandi heimildir að Jón hafði
liafið samningu Flugna þremur árum áður en Sigurður gaf út
Fornar ástir með hvatningu sinni fyrir óbundinni ljóðagerð.
Hitt virðist líklegt að orð Sigurðar hafi getað verið Jóni eggjun
til að láta þennan skáldskap sinn koma fyrir sjónir almennings
sem og þær prentanir prósaljóða er komu út um þessar mundir,
Ljóðfórnir Tagores 1919 og ljóðaflokkurinn „Úr djúpinu" í
Kaldavermslum Jakobs Jóh. Smára 1920. Einnig hlaut Bókin um
veginn (1921) að örva ungt skáld til að reyna þetta form.
Áður en Jón gæfi ljóð sín út í bók hafði hann birt sex þeirra
(„Hatturinn", „Hjónaband", „Kvenmaður", „Tjaldið fellur“,
„Ævisaga" [„Ástarsaga" í Flugum] og „Vita nuova“) í tímaritinu
Iðunni, VII. árg., 1921—22, og þá undir sameiginlegu heiti
„Flugur“.
Rætur Flugna má rekja aftur til ársins 1916. Til er eiginhand-
arrit Jóns í lítilli stílabók101 og hefur hann skrifað á titilblaðið:
„Flugur Kokksins / skráð liefur / Jón Thoroddsen".102 Ef til vill
hefur Jón ekki tekið þessar „Flugur“ sínar giska hátíðlega í
fyrstu. Til þess bendir að neðar á titilsíðuna hefur hann skrifað:
„Motto: / Agara, gagara hundsskinsbupp / hvort er hún komin
á hreppinn upp.“ Það er skemmtilegt að með þessu mottói teng-