Skírnir - 01.01.1979, Síða 170
168 SVEINBJÖRN RAFNSSON SKÍRNIR
miðlarann. Samspil hins hlutlæga og hins huglæga (objekt —
súbjekt) í rás sögunnar, skaranir þeirra og umbreytingar sem í
ljós koma í heimildum við rannsókn, er atriði sem varðar gjör-
vallar svokallaðar fornbókmenntir íslendinga. Oft er bæði ófrjótt
og fánýtt að höggva þar almennt á hnútana með hugtökum sem
alls ekki útiloka hvert annað í sögunnar rás eins og skáldskapur
og veruleiki, sannleikur og lygi, sagnfræðilegt gildi, skáldskapar-
legt gildi, listrænt gildi o.s.frv. Hinar svokölluðu fornbókmennt-
ir Islendinga eru og verða sögulegar heimildir sem sjálfsagt er að
nota sem slíkar hvað sem öðru líður. Hvernig sem menn snúa sér
verða þær ekki hafnar yfir tíma og rúm.la
Mörg merkileg sagnrit urðu til um kristnitökuna eftir að Ari
reit frásögn sína. Á miðöldum var frásögn Islendingabókar end-
ursögð í Kristni sögu, Ólafs sögu Tryggvasonar, Njálu og víðar.
Sagnritarar sautjándu og átjándu aldar t.a.m. Arngrímur Jóns-
son og Finnur Jónsson biskup fjölluðu einnig um kristnitökuna
á grundvelli miðaldaheimilda. Frá síðustu öld og aldamótum má
minnast á hina ágætu fræðimenn Konrad Maurer og Björn M.
Ólsen.1 Þá hefur töluverð umræða verið um þessi mál á þessari
öld, af íslenskum mönnum má nefna Jón Helgason biskup, Jón
Jóhannesson, Björn Þorsteinsson, Jón H. Aðalsteinsson og Sig-
urð Líndal.2 Síðast en ekki síst ber að nefna Halldór Laxness
sem í tímaritsgrein, „Fáeinar athuganir um .kristniréttarákvæði
elstu‘ “, hefur af ágætri skarpskyggni bent á nokkur þau vanda-
mál sem hér verður drepið á.3
Ekki er það í neinu ósamræmi við atburði annars staðar í
Evrópu á níundu, tíundu og elleftu öld að kristni hafi verið
lögtekin hér, að kristindómurinn væri í formi laga eða laga-
ákvæða. Staðbundin þing eða samkomur höfðingja og lénskra
biskupa, sem voru mikið til óháðir páfadómi, gerðu lagasam-
þykktir sem höfðu einungis gildi á yfirráðasvæði þeirra. Bænda-
eða einkakirkjufyrirkomulagið var óaðskiljanlegur þáttur þessa
ástands og svo magnaður að páfi hlaut að samþykkja það á
kirkjuþingi árið 826. Slíkt var ástandið í uppleystu Karlunga-
ríkinu á tíundu og elleftu öld og íslenskt samfélag tók um sumt
svipmót af því.4
Það sem hér verður til umræðu er: hvers konar kristindómur