Skírnir - 01.01.1979, Page 253
SKÍRNIR
RITDÓMAR
251
blandaðra stíltegunda korau sem bein uppreisn gegn reglufestu nýklassík-
urinnar. Um sumt má líka líta á fordæmingu rómantísku kynslóðarinnar ís-
lensku á dauðri formdýrkun rímnakveðskaparins sem hliðstæðu við uppgjör
evrópskrar rómantíkur við nýklassíkina. Einnig er þess að gæta að róman-
tískt skáld eins og Jónas Hallgrímsson var um sumt mótaður af nýklassískum
viðhorfum. Líka má minna á það að fyrstu íslensku leikritin, sem rísa undir
nafni, voru samin eftir mynstri nýklassískrar gerðar gamanleika.
Fengur er að kaflanum „Dálítið um forrómantík" (64. bls. o.áfr.). Hann er
til þess fallinn að sýna nemendum að saga bókmenntanna er blæbrigðaríkari
en hin klára og kvitta tímabilaskipting segir til um. Vafasöm er hins vegar
sú fullyrðing að forrómantikur gæti sáralítið í íslenskum bókmenntum (65.
bls.) og íslendingar kynnist henni fyrst í þýðingum á Ijóðum Ossians.
Voru ekki Eggert Ólafsson, Jón Þorláksson og Sveinbjörn Egilsson full-
gildir fulltrúar forrómantískra viðhorfa?
Þriðji aðalkafli bókarinnar, „Rómantík raunsæi nýrómantík 1830—1930",
er sá hluti hennar þar sem höfundur fylgir nánast þeirri stefnu, er hann
lýsti yfir í formálanum, og jafnframt sá hlutinn sem gleggsta heildarmynd
gefur af straumum og stefnum tiltekins tímabils í tengslum við þjóðfélags-
þróun.
í skilgreiningu sinni eða lýsingu á hugtakinu rómantík kveðst bókarhöf-
undur styðjast við bandaríska handbók um stefnuna svo sem hún birtist í
engilsaxneskum bókmenntum. Flest af því, sem þar segir, á að vísu einnig
við um rómantík meginlandsins, Þýskalands og Norðurlanda. Höfundur
leggur þó nokkra áherslu (raunar rneiri en ýmsir fræðimenn svo sem René
Wellek og Lilian Furst telja rélt) á að kjarni stefnunnar hafi verið ólíkur
eftir umhverfi og aðstæðum. Með því að íslenska rómantíkin er framar öðru
lituð svipuðum viðhorfum og þýskir og skandinavískir höfundar höfðu, hefði
verið eðlilegra að leita heimilda um stefnuna í skilgreiningar fræðimanna úr
þeim heimshluta sem miðaðar voru við stefnuna þar.
Einkum er þess hér að sakna að nær engin grein er gerð fyrir heimspeki-
legum grundvelli stefnunnar, þ. e. hinni platónsku tvíhyggju, hughyggj-
unni og náttúruheimspekinni. Af þessum sökum koma hugtök eins og „róm-
antískt háð“ (101. bls.) dálítið eins og fjandinn úr sauðarleggnum (raunar
hefði t. a. m. þar verið ástæða til að skýra mun klassískrar íróníu og róm-
antískrar) og það er nærri því eins og bókarhöfundur verði hissa að rekast
á að „einhvers konar tvíhyggja" (112. bls.) birtist í kvæði skálds sem mótað
var af kristinni trú og rómantík eins og Matthías Jochumsson. Auðfundnustu
dæmin um platónsk-rómantíska tvíhyggju eru þó sennilega í kvæðum Bene-
dikts Gröndals Sveinbjarnarsonar og Steingríms Thorsteinssonar, svo að ekki
sé talað um kvæði Einars Benediktssonar sem að þessu leyti heyrir fremur
til rómantík en nýrómantik. Áhrif engilsaxneskra rómantískra skálda berast
hingað síðar en hinna þýsku og skandinavísku. Líklega mun síðrómantiskt
skáld eins og Gísli Brynjúlfsson vera þar einna dæmigerðastur fulltrúi.
í þessum kafla hefði bókarhöfundur og átt að gera nánari grein fyrir gildi