Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.1998, Blaðsíða 11
Herra Ólafur Skúlason biskup íslands
Prestaskólinn 150 ára
Ávarp við hátíðarmessu í Dómkirkjunni 7. september 1997
Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Gott þykir kirkjunni að hafa tækifæri til þess við þessa hátíðarguðsþjónustu
að færa hinum forna Prestaskóla og nú guðfræðideild þakkir fyrir störf í hálfa
aðra öld. Enda verður vart hugað að starfi kennara í helgum fræðum, að ekki sé
um leið horft til kirkjunnar. Við gerum okkur þó grein fyrir því, að ekki helgast
kennslan af því einvörðungu, að verið sé að undirbúa verðandi presta fyrir fram-
tíðarstarf. Það setjast fleiri í hina litlu fimmtu kennslustofu í aðalbyggingu Há-
skóla íslands en þeir einir, sem í framtíð munu sækja um vígslu til helgrar þjón-
ustu. Vísindi eiga að efla dáð í guðfræði sem öðrum greinum burt séð frá því,
sem á eftir kann að fylgja. Og sé af opnum huga tekið í móti því, sem fram er reitt
í guðfræði, er verið að leggja grunn að því, að áfram sé haldið og ekki litið fram
hjá því, að sífellt verður að bæta við. Og ekki á það síður við um fræðigrein, sem
kennir sig við Guð, heldur en um önnur viðfangsefni hinna æðstu menntastofn-
ana.
Þó fer ekki hjá því, að breyttir tímar kalla eftir öðrum áherslum á mörgum
sviðum. Skal þó enn áréttað, að kirkjan getur ekki og á ekki að ætlast til þess að
kennsla í guðfræðideild miðist við það eitt að fá henni hæfa starfsmenn. Námið
hlýtur að fá að njóta sín sem slíkt án þess að kirkjan marki því of þröngan bás
vegna væntanlegs starfs.
Við upphaf Prestaskólans fyrir hundrað og fimmtíu árum var heimur prestsins
ólíkur því, sem samtíminn opinberar honum. Hefði fyrr verið hugað að fleiri
þáttum en þeim einum, sem snerta beina iðkun helgra fræða og leitast við að búa
prestsefni undir þau viðfangsefni, sem kalla mundu eftir hæfileikum hans og af-
skiptum auk prestsþjónustunnar, hefði vafalaust komið sér best, að bætt væri við
upplýsingum um bústörf eða í það minnsta, hvernig best mundi að stjórna búi og
hafa mannaforráð í þeirri grein. En á upphafsskeiði í sögu skólans hafði prestur
framfæri sitt af jörðinni, sem fylgdi brauði hans. Og var það ekki fyrr en eftir síð-
ustu aldamót, að róttækar breytingar voru gerðar á þessari skipan.
9