Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.1998, Page 22
Páll Skúlason
Ef horft er til sögunnar virðist mega fá óræka staðfestingu þess. Heimur vís-
inda og fræða á rætur sínar að rekja til Forn-grikkja sem fyrstir skilgreindu
manninn sem skynsemisveru, veru gædda þeirri gáfu að geta séð hvað er satt og
rétt og hæfa til að ræða með rökum um tilveruna alla og móta líf sitt í anda eigin
hugmynda og skoðana á heiminum. Heimur vísinda og fræða mótast upphaflega
í andstöðu við heim goðsagna og guðlegra tákna sem smám saman eyðist og
verður áhrifalaus andspænis rökvísri hugsun og orðræðu. Þessi heimur vísinda
og fræða, þar sem hugsjónin um manninn sem skynsemisveru situr í öndvegi, ber
uppi alþjóðamenningu samtímans sem boðar mönnum glæsta framtíð - svo
fremi þeir vaxi að visku og skilningi og láti skynsamleg rök og skoðanir ráða
ákvörðunum sínum.
Heimur trúar og tilbeiðslu á sér aðrar sögulegar rætur og flytur annan boðskap
en þann sem kenndur er við vísindi og fræði. Ræturnar liggja hjá hinni fomu
gyðingaþjóð og helgiriti hennar, Biblíunni, og síðan hinum kristna söfnuði sem
vex og dafnar í Rómaveldi, uns kristindómur verður opinber trúarbrögð á Vestur-
löndum, og er meðal annars lögfestur hér á íslandi árið 1000. í þessum heimi trú-
ar og tilbeiðslu er maðurinn frjáls vera - sköpuð í mynd hins skapandi Guðs -
vera gædd eigin vilja og mætti til að móta heiminn; og hefur gert það í andstöðu
við vilja Guðs, með því að brjóta lög hans og ógna þar með öllu lífi. Boðskapur-
inn sem hér er fluttur er sá að von mannsins sé komin undir náð Guðs, að mann-
inum sé um megn að losa sig úr þeim viðjum ófrelsis sem hann sjálfur hefur
hneppt sig í.
Vestræn siðmenning einkennist af sambúð þessara tveggja heima, sem hér er
lýst, eða réttara sagt átökum og spennu á milli þeirra. Þessi spenna kemur meðal
annars fram í siðferði manna og hvernig við getum reynt að rækta það. Annars
vegar höfum við þá hina grísku hugmynd um manninn sem skynsemisveru, sem
af eigin rammleik getur tamið sér dygðir og fundið fótum sínum forráð í tilver-
unni. Hins vegar höfum við hina gyðinglegu-kristnu hugmynd um manninn sem
viljaveru sem hefur villst af braut og getur ekki vænst þess að ná áttum nema
með því að einu að leita ásjár Guðs og styðjast við lögmál hans.
I háskólum miðalda var guðfræðinni falið að sætta þess tvo heima: Hún átti
að vera skynsamleg leið til að rannsaka forsendur trúarinnar og innihald hennar.
Hún átti að vera drottning vísinda og fræða, enda voru allir fræðimenn þjálfaðir
í að rökræða guðsorð. Nú er öldin önnur. Heimur vísinda og fræða hefur krafist
sjálfstæðis gagnvart öllum trúarskoðunum og kenningar guðfræðinnar hafa vikið
fyrir kenningum náttúruvísinda og mannvísinda. Fljótt á litið virðist guðfræðin
orðin hornreka í heimi fræðanna. Sé svo yrði spurningunum, sem ég varpaði
fram í upphafi, auðsvarað - og dagar guðfræðinnar sem virtrar fræðigreinar
væru taldir:
20