Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.1998, Side 163
Guðfrœði og biblíuþýðing
lem og frásögnina af Bartímeusi blinda (8.22 - 10.52) hefst svo lýsing á atburð-
unum í Jerúsalem, af innreið Jesú, orðræðum hans, athöfnum og krossfestingu
hans, dauða og upprisu (11.1 - 16.8/20).
Tíma og staðarákvarðanir: Atburðurinn gerist í lok starfsferils Jesú, skömmu
fyrir krossfestingu hans. Tímaákvarðanir í frásögninni sjálfri eru tíminn á undan
kraftaverkinu og tíminn á eftir kraftaverkinu. Á undan kraftaverkinu situr Bart-
ímeus við veginn en þegar stundin nálgast sprettur hann upp og á eftir krafta-
verkinu fylgir hann Jesú á ferðinni. Tími sögumannsins og lesendanna er eftir
krossdauða og upprisu Jesú en atburðimir, sem lýst er, gerast á undan dauða Jesú
og upprisu. Þegar Jesús segir við lærisveinana: „Mannssonurinn á margt að líða,
honum mun útskúfað verða af öldungum, æðstu prestum og fræðimönnum, hann
mun líflátinn, en upp rísa eftir þrjá daga“ (8.31) er um framtíð að ræða frá sjón-
arhorni lærisveinanna en um liðna tíð frá sjónarhorni höfundar og lesenda. Eins
þegar Jesús segir: „Sannlega segi ég yður: Nokkrir þeirra, sem hér standa, munu
eigi dauða bíða, fyrr en þeir sjá Guðs ríki komið með krafti“ (9.1 sbr 8.38) er um
framtíð að ræða fyrir lærisveinana en ekki eins ljóst hvernig höfundur og fyrstu
lesendur skildu þessi orð.
Jesús og lærisveinamir eru á ferð til Jerúsalem og á leið út úr Jeríkó. Áður
hafa þeir verið í Betsaídu og farið um þorpin við Sesareu Filippí og komið til
Kapernaum. Þaðan halda þeir til byggða Júdeu og yfir um Jórdan á leið til
Jerúsalem. Aðrar staðarákvarðanir sem koma fyrir í þessum kafla eru t.d. fjallið
(9.2-7), helvíti og hinn óslökkvandi eldur (9.43nn).
Persónurnar í sögunni og samband þeirra:
í kaflanum 8.22 - 10.52 koma fyrir margar persónur. Dæmi:
Guð eða rödd Guðs heyrist úr skýi á ummyndunarfjallinu sem segir: „Þessi er
minn elskaði sonur, hlýðið á hann!“ (9.7). Grundvallarmunur er á viðhorfi Guðs
og viðhorfi manna (8.33; 10.27).
Jesús er á leið til Jerúsalem ásamt lærisveinum sínum og fólki sem fylgdi
þeim. Hann læknar sjúka, ræðir við farísea og fræðimenn og kennir fólkinu.
Hann sér allt fyrir, hann veit hvað lærisveinarnir voru að tala um á leiðinni (9.33)
og hvemig allt muni fara. Hann talar um sjálfan sig sem Mannsson, og reynir að
útskýra fyrir lærisveinum sínum nauðsyn þess að hann deyi. Hann ávítar Pétur
fyrir að hugsa ekki það sem Guðs er heldur það sem manna er (8.32) og finnur til
með auðuga manninum sem leitaði til hans (10.21). Hann ummyndast og fær
guðlega ásjónu fyrir augum þriggja lærisveina á háu fjalli (9.2-7). Hann er nefnd-
ur Rabbúní, sonur (Guðs), sonur Davíðs og Kristur.
Bartímeus, blindi beiningamaðurinn, ávarpar Jesú sem son Davíðs og heldur
áfram að hrópa þangað til Jesús lætur kalla á hann. Blindi maðurinn kastar frá sér
yfirhöfn sinni, sprettur á fætur og kemur til Jesú. Jesús segir þá við hann: „Far
161