Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1967, Blaðsíða 24
22
MÚLAÞING
sjálfsögðu, í báðum ferðunum heimaþjóðinni mikill aufúsugestur,
og hvarvetna fagnað með ágætum. Þeim ummælum til staðfesting-
ar þurfa menn eigi annað en lesa blaðaviðtölin við hann í heim-
ferðunum báðum, og aðrar blaðagreinar um heimsóknir hans, er
jafnframt bera því vitni. hve hrifinn hann var af því að vera nú
kominn heim til ættjarðarstranda, og af öllu því, sem bar honum
fyrir sjónir. Sannleikurinn er sá, eins og vænta mátti, að kynnin
af landi og þjóð glöggvuðu honum skilning á báðum og dýpkuðu
ást hans og aðdáun á þeim. Þetta kemur eftirminnilega fram í Is-
landskvæðum þeim, sem hann orti eftir heimferðirnar, og þrungin
eru heitri hrifningu og ástarhuga. (Sbr. EimreiðargTein mína, þar
sem vitnað er til þessara kvæða hans).
Að sjálfsögðu heimsótti hann átthagana og ættingja sína á Aust-
urlandi. Fór hann um komuna þangað, og heimsóknina til ættjarð-
arinnar í heild sinni, þessum orðurn í viðtali við Nýja Dagblaðio
að lokum fyrri heimferðar sinnar:
„Ekki hef ég séð fegurri sveit en Fljótsdalshérað, heimhyggð ætt-
menna minna. Þar á ég frændur á hverjum bæ. Ég tel mig líka í
ætt við hina, sem ég er óskyldur.------Allt hefur komið mér betur
fyrir sjónir en mig dreymdi um. Menn geta ekki gert sér í hugar-
lund framfarirnar hér heima, nema sjá þær sjálfir. Gróðurinn er
líka mun meiri. Ég held, að beitilöndin séu óviðjafnanleg og út-
heyið kjarnbetra en annars staðar þekkist.“
Víst tel ég, að sonnettan „bIengifossgljúfur,“ í Kanadaþistli, eigi
rætur að rekja til ofannefndrar ferðar skáldsins austur á Hérað,
en lýsingin á fossinum og hrikaleik hans er bæði myndrík og magni
þrungin:
Hengifossgljúfur, tryggðatrölla kirkja
talin til mestu helgidóma Fróns.
Prédikar þar á máli Meistara Jóns
árstraumur, trú á eigin mátt að styrkja.
Hengifoss ofan hrikabergsins gnípur
hendist og þýtur. Sterkur, aldrei veikur
stígur hans hlj ómur upp, er á hann leikur
stuðlabergsorgels himinháar pípur.