Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.08.2011, Síða 17

Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.08.2011, Síða 17
Tímarit hjúkrunarfræ›inga – 4. tbl. 87. árg. 2011 13 Ritrýnd fræðigrein SCIENTIFIC PAPER (virku) eða mögulegu heilbrigðisvandamáli einstaklings eða fjölskyldu, sem hjúkrunarfræðingar í krafti menntunar sinnar og reynslu eru hæfir til og hafa leyfi til að leysa (NANDA International (NANDA­I), 2009). Hér á landi hafa NANDA hjúkrunargreiningar verið notaðar í um 20 ár (Landlæknisembættið, 1991). Síðustu aldamót mörkuðu tímamót varðandi hjúkrunarskráningu þegar gerð var krafa um notkun flokkunarkerfa í hjúkrun í kröfulýsingu um rafræna sjúkraskrá (Heilbrigðis­ og tryggingamálaráðuneytið, 2000) og í tilmælum um lágmarksskráningu vistunarupplýsinga á sjúkrahúsum (Landlæknisembættið, 2001). Í kjölfarið jukust kröfur um daglega notkun fagmáls í hjúkrun til skráningar víða á sjúkrahúsum landsins. Árið 2003 var meðal annars helgað átaki í að bæta hjúkrunarskráningu og auka notkun staðlaðs fagmáls í hjúkrun á Landspítala (Ásta Thoroddsen, 2006). Þrátt fyrir að 10 ár séu liðin frá því að kröfur um notkun flokkunarkerfa í hjúkrun voru settar fram er enn ekki hægt að skrá hjúkrunargreiningar og hjúkrunarmeðferð fyrir inniliggjandi sjúklinga á sjúkrahúsum í rafræna sjúkraskrá nema að mjög takmörkuðu leyti. Á Landspítala hefur einungis hjúkrun á göngudeildum verið skráð í rafræna sjúkraskrá en fyrir árslok 2011 er fyrirhugað að innleiða rafræna hjúkrunarskráningu í sjúkraskrá á legudeildum. Frá og með árinu 2011 verður jafnframt tekið upp nýtt, staðlað fagmál í hjúkrun á Íslandi, sem nefnist ICNP (International Classification for Nursing Practice) (Landlæknisembættið, 2011). Rannsóknir sýna að nákvæmni í notkun hjúkrunargreininga í sjúkraskrám sjúklinga er víða ábótavant (Florin o.fl., 2005; Lunney, 1998) og margir þættir hafa áhrif á nákvæmni hjúkrunarfræðinga við greiningu hjúkrunarvandamála (Paans o.fl., 2011). Þættir sem Paans og félagar nefna að ýti undir nákvæmni eru meðal annars viðhorf til notkunar hjúkrunargreininga, þekking og reynsla, gagnrýnin hugsun, þekking á greiningarferlinu, form sem notuð eru til hjúkrunarskráningar, stuðningur í rafrænni sjúkraskrá, vinnuumhverfi hjúkrunarfræðinga og mönnunarmódel. Kerfisbundin samantekt rannsókna á hjúkrunarskráningu sýnir einnig að mikið skortir á að staðlað fagmál í hjúkrun sé notað við daglega hjúkrunarskráningu á alþjóðavísu (Saranto og Kinnunen, 2009). Ekki fundust rannsóknir er varða notkun hjúkrunargreininga eða hjúkrunarmeðferðar fyrir þrýstingssár eða byltur sérstaklega. Þrýstingssár og byltur Þrýstingssár og byltur eru notuð sem viðmið um gæði þjónustu á sjúkrahúsum um allan heim og eru þrýstingssár einn af árangursvísum í skorkorti Landspítala árin 2011­2012 (Landspítali, 2011). Klínískar leiðbeiningar hafa verið gefnar út á íslensku um varnir gegn myndun þrýstingssára (Landspítali, 2008b) og til að fyrirbyggja byltur (Landspítali, 2006). Rannsóknir sýna að algengi þrýstingssára á sjúkrahúsum er 8,3­23% í Evrópu (Vanderwee o.fl., 2007). Við skoðun sjúklinga á Landspítala árið 2008 reyndust 21,5% þeirra vera með þrýstingssár (Guðrún Sigurjónsdóttir o.fl., 2011) en gögn úr sjúkraskrám og opinberum skýrslum sýna mun lægri tölu (Landspítali, 2009). Meira en 30% sjúklinga sem eru eldri en 65 ára hljóta byltur á heilbrigðisstofnunum árlega (Gillespie o.fl., 2003). Árið 2005 var 351 bylta skráð sem atvik á Landspítala eða 1,4 byltur á 1000 legudaga (Landspítali, 2006), en sambærileg tala var 2,7 til 13 byltur á 1000 legudaga víða erlendis (Halfon o.fl., 2001; Healey o.fl., 2008; Oliver o.fl., 2007). Margar alþjóðlegar stofnanir vinna að útgáfu klínískra leiðbeininga, til dæmis evrópsku og bandarísku ráðgjafarsamtökin um þrýstingssár (European Pressure Ulcer Advisory Panel (EPUAP) og National Pressure Ulcer Advisory Panel (NPUAP), 2009), National Institute for Health and Excellence (NICE) (2005) og Registered Nurses‘ Association of Ontario (RNAO) (2011). Þær hafa ítrekað mikilvægi þess að kerfisbundið mat fari fram á sjúklingum sem leggjast inn á sjúkrahús til að greina þá sem eru í hættu á að fá þrýstingssár og byltu. Mikilvægt er að skráð sé á staðlaðan hátt í sjúkraskrá ef sjúklingar eru í hættu á að fá þrýstingssár eða byltu þar sem það gefur mikilvægar vísbendingar um öryggi sjúklinga og gæði þjónustu. Leiðbeiningar eða reglur um hvað eða hvernig eigi að skrá hafa ekki verið settar fram á Íslandi. Rannsóknir gefa til kynna að þrýstingssára­ og byltuvarnir séu dagleg viðfangsefni í hjúkrun sjúklinga á sjúkrahúsum. Í klínískum leiðbeiningum er ráðlagt að áhættumat vegna þrýstingssárahættu sé gert hjá öllum sjúklingum sem leggjast inn (Landspítali, 2008b) og byltumat hjá öllum sjúklingum 67 ára og eldri (Landspítali, 2006). Athyglisvert má því telja að hugtakið þrýstingssár eða legusár er ekki að finna á lista yfir NANDA­hjúkrunargreiningar. Hins vegar eru á þessum lista eftirfarandi hjúkrunargreiningar sem lýsa húðtengdum vandamálum: Veikluð húð, hætta á veiklun húðar, vefjaskaði­ sár, hætta á fylgikvillum rúmlegu og hætta á skaða við legu vegna skurðaðgerðar. Hjúkrunargreiningin hætta á byltu eða dettni lýsir aftur á móti byltuhættu ótvírætt og hefur verið til síðan árið 2000 (NANDA­I, 2009). Í ljósi þess hve algeng ofangreind tvö viðfangsefni eru í hjúkrun og samfara aukinni notkun staðlaðs fagmáls í hjúkrun þótti áhugavert að kanna hvernig þau væru skráð í sjúkraskrá sjúklinga. Rannsóknarspurningin er því: „Hvaða hjúkrunargreiningar og hjúkrunarmeðferð hafa íslenskir hjúkrunarfræðingar notað til að skrá þrýstingssár og byltur eða hættu þar á?“ AÐFERÐ Rannsóknarsnið og úrtak Framkvæmd var lýsandi rannsókn þar sem hjúkrunargreiningar og skráð meðferð í sjúkraskrám sjúklinga á árunum 2004 og 2005, sem tengdust þrýstingssárum og byltum eða hættu þar á, voru kannaðar. Úrtaksviðmið voru sjúklingar eldri en 18 ára á Landspítala á lyflækninga­, skurðlækninga­ og öldrunarlækningasviði og endurhæfingardeild (29 deildir) sem höfðu legið lengur en 48 klst. á deildinni. Val á sjúkraskrám fór fram með kerfisbundinni úrtaksaðferð. Fyrsta sjúkraskráin var valin af handahófi og síðan var önnur hver sjúkraskrá sjúklinga valin þar til 50% sjúklinga, sem uppfylltu ofangreind úrtaksviðmið á hverri deild, var náð (n=211 og n=196).

x

Tímarit hjúkrunarfræðinga

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Tímarit hjúkrunarfræðinga
https://timarit.is/publication/1159

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.