Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.08.2011, Qupperneq 30
Tímarit hjúkrunarfræ›inga – 4. tbl. 87. árg. 201126
Oft var sambandið við aðstandendur mjög náið, sérstaklega
við maka sem bjuggu á heimilinu og tóku þátt í vitjunum. Slíkir
aðstandendur höfðu yfirsýn yfir þá meðferð sem einstaklingurinn
naut, skipulögðu heimsóknir til lækna og fylgdust með
breytingum á ástandi. Í viðtölum lýstu hjúkrunarfræðingarnir
því oft hvernig þeir þurfa að huga vel að líðan aðstandenda.
Álagið á þá verður oft mikið, sérstaklega á maka og þeir
sögðust í mörgum tilvikum skipuleggja hvíldarinnlagnir meira
fyrir aðstandandann en þann sem nýtur heimahjúkrunar. Hins
vegar nota þeir ekki formlegar matsaðferðir til að meta álag á
aðstandendur.
Að ráðfæra sig við aðra fagmenn
Hjúkrunarfræðingarnir í heimahjúkrun reiða sig á mat sitt
og taka ákvarðanir á grundvelli þess. Í öllum viðtölunum
endurómaði tilfinningin um að vera mikið einn, en að
starfinu fylgi sjálfstæði og tækifæri til að láta til sín taka. Þó
hjúkrunarfræðingunum hafi fundist þeir standa einir kölluðu
þeir eftir ráðgjöf frá öðrum starfstéttum teldu þeir þörf á því.
Margir einstaklingar sem njóta heimahjúkrunar búa við langvinn
og margþætt heilsufarsvandamál sem útheimtir þjónustu sem
er í eðli sínu fjölfagleg. Því er mjög áríðandi að ná samvinnu
við aðrar starfsstéttir sem koma að skipulagningu meðferðar.
Í slíkum aðstæðum var síminn aðal vinnutækið. Síminn
tengir hjúkrunarfræðingana við hina ólíku aðila sem koma
að heilbrigðisþjónustu sjúklinganna. Teymisstjórarnir þekkja
starfsfólk á ólíkum þjónustueiningum eins og göngudeildum,
hjúkrunarheimilum, dagdeildum og lyfjaverslunum og fá yfirleitt
hraða og árangursríka afgreiðslu. Fyrir vikið tekst þeim oft að
finna lausnir á flóknum vandamálum.
Algengt var að sjúklingarnir hefðu marga lækna. Þessi fjöldi
lækna gerir starfið í heimahjúkrun mjög flókið og erfitt að
samhæfa. Til algjörrar undantekningar heyrir að læknar vitji
sjúklinga heima en það skapar oft töluverða erfiðleika fyrir
hjúkrunarfræðingana. Jafnframt er aðgengi að læknum oft
takmarkað þar sem þeir eru með þéttskipaða dagskrá í
móttöku sjúklinga og taka ekki síma nema á ákveðnum
tímum. Oftast hafa þeir þó samband við hjúkrunarfræðinginn
um leið og ráðrúm gefst. Ef hjúkrunarfræðingi tekst ekki að
finna viðeigandi lausnir á meðferð og hefur áhyggjur af ástandi
sjúklingins er hann nauðbeygður til að hringja eftir sjúkrabíl og
láta flytja sjúklinginn á bráðamóttökuna til athugunar. Það er
samdóma álit þeirra sem um þessi mál hafa fjallað að sú lausn
sé oft óheppileg. Fólk þarf jafnvel að bíða klukkutímum saman
eftir að fá lausn sinna mála. Þá eykst hættan á því að meðferð
raskist og að viðkvæmt jafnvægi sem komist hefur á fari úr
skorðum. Því er áríðandi að finna leiðir til að takast á við þessi
vandamál heima og koma í veg fyrir ferðir á bráðamóttökuna.
Hjúkrunarfræðingarnir voru á því að starfið gengi yfirleitt mun
betur ef sjúklingurinn hefði einn lækni sem hægt væri að snúa
sér til. Þetta er yfirleitt heimilislæknir eða öldrunarlæknir sem
hefur yfirsýn yfir alla meðferð. Það er lykilatriði fyrir þessa
hjúkrunarfræðinga að hafa gott samband við þennan aðila. Það
gekk þó misvel og tók oft mikinn tíma. Einnig var mismunandi
hversu áhrifaríkar athuganir hjúkrunarfræðinganna voru. Tækist
þeim að setja fram hlutlægar upplýsingar um breytingar á
blóðrannsóknum, lífsmörkum og öðrum gildum voru líkur til
að brugðist væri við, en athugasemdir um að „hann væri ekki
sjálfum sér líkur“ höfðu hins vegar lítið vægi.
Árangursríkasta fyrirkomulagið var að ná sambandi
við hjúkrunarfræðing á göngudeildum spítalans eða á
heilsugæslustöðvunum. Þessir hjúkrunarfræðingar settu sig
inn í málin og fylgdu þeim eftir gagnvart læknunum. Þeir komu
oft með hjálplegar ráðleggingar um meðferð, fóru jafnvel með
í vitjanir og höfðu samráð við læknana um breytingar á lyfjum,
blóðprufur og annað.
UMRÆÐA
Starf hjúkrunarfræðinga í heimahjúkrun einkennist af því
að halda utan um marga þræði og tengja þá saman á
þann hátt að það myndist eins konar net umhverfis hvern
einstakling. Þetta net miðar að því að hann fái stuðning og
aðstoð til að geta búið heima og líði vel þar. Samstarf innan
heimahjúkrunarteymisins, milli teymisstjóra og sjúkraliða var
lykilatriði til að mynda og viðhalda netinu. Það einkenndist af
opnum og hreinskilnum samskiptum þar sem skoðanir allra
áttu sér hljómgrunn. Hér komu einkenni góðrar teymisvinnu,
eins og Opie (1997, 2000) lýsti henni, glögglega fram.
Innan teymanna hafði skapast sameiginlegur skilningur á því
sem bæri að stefna að og á fundum fóru fram gagnrýnar
umræður um leiðir til að ná sameiginlegum markmiðum og
leysa verkefni. Þessar niðurstöður endurspegla mikilvægi
þess að samstarfsfólk hafi tækifæri til að ræða saman og
mynda sameiginlegan skilning á markmiðum og verkefnum.
Samráðsfundir voru ómetanlegir til að samhæfa starfið og finna
nýjar lausnir. Þeir einkenndust af gagnrýnu og uppbyggjandi
andrúmslofti þar sem öllum sjónarmiðum var sýnd virðing.
Heimahjúkrun er hópstarf og skilningur hjúkrunarfræðinganna
á stöðu mála mótast í mörgum tilvikum af þeim upplýsingum
og innsæi sem sjúkraliðarnir hafa öðlast. Því má halda því fram
að þessir fundir séu forsenda árangursríkrar heimahjúkrunar.
Þessar niðurstöður voru í takt við niðurstöður fyrri rannsókna
á heimahjúkrun á Íslandi (Bjornsdóttir, 2011). Þar kom fram
að ef saman fór sveigjanleiki og sterk teymisvinna sköpuðust
aðstæður til að veita vandaða heimahjúkrun sem samræmdist
óskum þeirra sem hennar nutu. Líkt og fram kom í rannsókn
Pols (2004) hafði á slíkum vinnustöðum myndast sameiginlegur
skilningur á áherslum í starfi og þeim gildum sem mikilvægt
væri að halda í heiðri.
Erfiðleikar í starfi hjúkrunarfræðinga í heimahjúkrun tengdust
yfirleitt því að ekki var hægt að ná sambandi við fagaðila og
mynda samstarf til lausnar á vandamálum. Fyrir þessu gátu
legið ýmsar ástæður eins og erfiðar aðstæður aðstandenda
sem ekki gátu veitt þá aðstoð sem vænst var. Einnig kom fram
að áherslur í heilbrigðiskerfinu miðast við ákveðinn skilning
á því sem skiptir máli sem var stundum ekki í samræmi við
þau vandamál sem hjúkrunarfræðingarnir stóðu frammi fyrir.
Það sem oftast kom upp í þessu sambandi var samstarf við
lækna, oft var erfitt að ná í þá og stundum kom fram ólíkur
skilningur á eðli vandamálanna. Þetta líktist því sem Stein