Gerðir kirkjuþings - 2009, Page 107
107
19. Gæta þess að eiga gott samstarf við samstarfsfólk og yfirmenn, stuðla að
eindrægni og samhug og gæta virðingar í umtali.
20. Sýna jafnan trú og siðum annarra umburðarlyndi og forstöðumönnum og
prestum annarra trúfélaga og kirkjudeilda virðingu.
21. Gæta þess að vera málefnaleg og gæta varkárni í ummælum um kenningarleg
og guðfræðileg mál, hvort sem er í samræðum eða opinberlega.
Almenn ákvæði
Miða skal við að þeir sem starfa með eða hafa umsjón með börnum og ungmennum í
æskulýðsstarfi séu lögráða og hafi þjálfun, menntun, þekkingu eða reynslu til
starfsins.
Að 18 ára aldri er einstaklingur skilgreindur sem barn. Óheimilt er að ráða til starfa
fólk til að sinna börnum og ungmennum í æskulýðsstarfi, einstaklinga sem hlotið hafa
refsidóm vegna kynferðisbrots, skv. XXII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940
um kynferðisbrot. Sama gildir um þá sem hlotið hafa refsidóm á síðastliðnum fimm
árum fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Þessi ofangreindu ákvæði ná
einnig til sjálfboðaliða sem falin er umsjón með börnum og ungmennum undir 18 ára
aldri.
Yfirmenn vígðra þjóna og starfsmanna þjóðkirkjunnar eiga rétt til upplýsinga úr
sakaskrá um það hvort tiltekinn einstaklingur, sem sótt hefur um störf á þeirra vegum,
hefur hlotið dóm vegna ofangreindra brota, að fengnu samþykki hans. Á það við bæði
um starfsfólk sem starfar með börnum og unglingum svo og við önnur störf hjá
sóknum og stofnunum kirkjunnar hvort sem um launuð eða ólaunuð störf er að ræða.