Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.09.2011, Page 81
Jón Ma. Ásgeirsson, Háskóla íslands
Postulinn Páll í Efesus:
Mótun borgarsamfélags í Efesus í fornöld
Ágrip
I þessari yfirlitsgrein skyggnist höfundur um í hinni fornu Efesus í Litlu Asíu
og vekur athygli á þeim möguleikum sem borgin og borgarmynd hennar
hefur upp á að bjóða fyrir rannsóknir á fornum textum og samfélögum.
Munu hér textar er snúa að Páli og veru hans í Efesus liggja til grundvallar
ásamt ýmsum heimildum öðrum er kunna að gagnast við að draga upp sem
ríkasta mynd af borginni á þeim tíma. Fjallað er fyrst nokkuð um upphaf
borgarinnar og hún sett í samhengi fornrar samfélagsmótunar og borgar-
myndunar. Sérstaklega er augum beint að komu Páls til borgarinnar með
tilliti til rýmis og hvernig Páli hefir verið lýst í því samhengi eða allt frá því
að vera miskunnarlaus fulltrúi hinnar fornu feðraveldishugsjónar til þess
að brjóta nýjum sjónarhornum um hlutverk kynjanna farveg frá sjónarhóli
rannsókna á hinum hýra heimi. í þessu samhengi er rými skoðað jafnt á
grundvelli hins eiginlega umhverfis og hins vegar hvernig ólíkir sérfræðingar
um Pál postula hafa nálgast persónu hans sjálfs í þessu samhengi.
Efesus og Nýja testamentið
I guðspjöllunum skipar persóna Jesú hvarvetna miðlægan sess. I
Postulasögunni, sem nú er talin rituð á fyrsta aldarfjórðungi annarrar aldar,
víkur persóna Jesú á hinn bóginn í skuggann fyrir sporgöngumönnum hans,
einkum þeim lærisveinum sem gefin er nafnbódn postuli eða píslarvottur.1
Postulasagan er umfram allt helguð postulanum Páli en saga hans og
annarra postula er að öðru leyti varðveitt í apókrýfum sögum postulanna.2
Postulasagan, sem flestir sérfræðingar í nýjatestamentisfræðum telja fram-
hald af Lúkasarguðspjalli og ritaða af sama höfundi, beinir og sjónum
lesenda sinna frá sögusviði guðspjallanna, einkum í Galíleu og Jerúsalem, til
1 Burton L. Mack, Who Wrote the New Testament: The Making of the Christian Myth 1995, s. 225-
239.
2 Sjá t.d. Hans-Josef Klauck, The Apocryphal Acts of the Apostles: An Introduction 2008.
79