Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.09.2011, Page 123
greinandi hún er. Hlutir eru settir í vítt samhengi, flokkaðir, skýrðir og
greindir. Með bókinni er þannig orðið til mikilvægt framlag til skilnings
á einni þekktustu guðfræðistefnu á síðari tímum, frjálslyndu guðfræðinni
svokölluðu, og sú stefna tengd öðrum hreyfingum og hugmyndastefnum
frá sama tíma. Spíritisminn eins og hann þróaðist hér á landi upp úr 1900
er einstaklega áhugvert íyrirbæri og nauðsynlegt að skilja hvers vegna hann
naut jafn mikillar hylli og raun ber vitni. Þar er aðkoma Haralds mikilvæg
en hann á heiðurinn af því að tengja hann á frumlegan hátt við kristna trú
og íslenska trúrækni þannig að almenningi fannst hið eðlilegasta mál að vera
í sambandi við framliðna og fá fréttir af þeim.
Jafnframt er hér birt ákaflega blæbrigðarík mynd af þjóðþekktri persónu
sem hvert mannsbarn þekkti til fyrir um 100 árum. Persónusagan og
hugmynda/guðfræðisagan — báðar eru þær ákaflega vel unnar. Svo er
ugglaust heimildum þeim sem höfundur hafði aðgang að, þ.e. persónuleg
bréf og nótur úr einkaskjalasafni Haralds, fyrir að þakka auk mikillar elju.
Með slíkar heimildir í farteskinu er unnt að fá fram blæbrigðaríka og sálrænt
aðlaðandi mynd af persónu, sem átti sér þó alls ekki bara bjartar og jákvæðar
hliðar. Það er alveg ljóst að Haraldur Níelsson var ekki gallalaus enda ekki
gerð nokkur tilraun til að upphefja hann og gera að dýrlingi. Myndin af
honum virðist mér raunsönn og sanngjörn.
Frágangur og framsetning bókarinnar er góð svo eftir er tekið. Málfarið
áferðarfagurt og líður fram eðlilega og smekklega. Ómetanlegt er að fá
nafnaskrá og vel unna heimilda- og tilvísunarskrá með verkinu. Það styður
við framtíða rannsóknir á þessu tímabili í hugmyndasögu lands og þjóðar
sem fræðimenn eiga eflaust eftir að njóta góðs af. Trúmaður á tímamótum
er sannarlega þyngdar sinnar virði og ástæða til að óska höfundi hennar,
Pétri Péturssyni til hamingju.
121