Morgunblaðið - 18.01.2018, Blaðsíða 38
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 18. JANÚAR 2018
ÁSKRIFTARHAPPADRÆTTI MORGUNBLAÐSINS
Drögum alla fimmtudaga í 10 vikur
og nöfn vinningshafa verða birt í
Morgunblaðinu á föstudögum.Stokkhólmur
S
tokkhólmur er í senn höf-
uðborg Svíþjóðar og
stærsta borg Norðurlanda,
með um 945.000 þúsund
íbúa. Elstu heimildir um nafnið ná
aftur til ársins 1252, og er það eign-
að Birger Jarl sem almennt er álit-
inn einn af upphafsmönnum borg-
arinnar. „Hólmur var líka réttnefni
á sínum tíma þó að fleirtala ætti
sjálfsagt betur við nú á dögum;
borgin dreifist á alls 14 misstórar
eyjar sem leikur einn er að fara um
enda brýr að finna hvarvetna og
alls eru þær 57 talsins. Þar af leið-
andi er ótrúlega þægilegt að skoða
sig um, vítt og breitt um Stokk-
hólm. Fjöldi eyjanna í sænska
skerjagarðinum gerir það að verk-
um að borgin er oft nefnd „Fen-
eyjar norðursins, og Svíar – þekktir
fyrir lítillæti sitt og hógværð, nema
hvað – kalla Stokkhólm gjarna
„hina fljótandi fegurð“. Á móti því
verður ekki mælt.
Gamla Stan –
elsti kjarni borgarinnar
Eitt helsta aðdráttarafl Stokk-
hólms er tvímælalaust hinn sögulegi
gamli borgarhluti, Gamla Stan, þar
sem gullfalleg mörg hundruð ára
gömul hús, þröngar steinlagðar göt-
ur og iðandi mannlíf mynda saman
ómótstæðilega heild sem engan
svíkur. Hér er að finna ótalmarga
veitingastaði, kaffihús, hönn-
unarbúðir og fleira. Skemmtilegast
er að leggja hér götukortinu og
snjallsímanum og ganga bara beint
af augum. Ef heppnin er með er
hægt að villast um stund, innan um
söguleg húsin og heillandi andrúms-
loftið. Fáar borgir í víðri veröld
státa af jafn viðamiklum borg-
arhluta frá miðöldum sem varðveist
hefur jafn vel svo það er meira en
þess virði að njóta staðar og stund-
ar.
Allt sem er sænskt, sænskt …
Fagurkerar munu kunna ein-
staklega vel við sig í Stokkhólmi því
þar taka menn sjónræna þáttinn al-
varlega. Hvort sem um er að ræða
fallega hönnunarverslun eða huggu-
legt kaffihús þá er eins gott að hafa
augun hjá sér – jafnvel símann á
lofti – því þar bíða ótal hugmyndir
fyrir heimilið við hvert fótmál.
Meira að segja innpökkunin á því
sem þú kannt að versla er þess
verðug að rata á Instagram fyrir
smekkvísi og hugmyndaauðgi. Hér
skilur maður svo mætavel hvers
vegna heimurinn horfir til Norður-
landa eftir hugmyndum; hinn hlý-
legi og náttúrulegi minimalismi sem
norræni stíllinn stendur fyrir er
einfaldlega ómótstæðilegur. Búðu
þig undir innblástur!
Ómissandi að sjá í Stokkhólmi
Þó að það sé einstaklega gaman
að ganga um borgina án áætlunar
og án áfangastaðar, þá eru engu að
síður fjölmargir staðir í Stokkhólmi
sem vart verður hjá því komist að
heimsækja, því þeir eru einstakir í
sinni röð. Vasa-skipið er til sýnis í
samnefndu safni og þar geta gestir
skoðað hið víðfræga herskip sem er
hið eina í heiminum sem varðveist
hefur frá 17. öld; Monteliusvagen er
gönguleið sem gefur kost á falleg-
asta útsýni að byggingum Stokk-
hólms sem völ er á, ekki síst eftir
að húma tekur og húsin eru upp-
lýst; Fotografiska við Stadsgards-
hamnen er einstakt safn með sam-
tímaljósmyndum og geymir margar
ógleymanlegar myndir; Skansinn er
ómissandi fyrir fjölskylduna til að
skoða hvernig daglegt líf, vinna og
handverk var fyrr á öldum; loks
verður að nefna Södermalm er að
margra mati er eitt huggulegasta
hverfið í Stokkhólmi, með kaffihús
og veitingastaði á hverju horni –
eins konar Brooklyn þeirra Stokk-
hólmara!
Græn svæði fyrir góða daga
Í Stokkhólmi er að finna víðáttu-
mikil græn svæði sem borgaryfir-
völd hafa borið gæfu til að varð-
veita, íbúum jafnt sem gestum til
ómældrar ánægju. Fyrst er að
nefna Djurgården, gleðireit fyrir
alla fjölskylduna sem áður var
veiðilendur konungsfjölskyldunnar.
Skemmtigarðurinn Gröna Lund er
þar með fjölbreyttum tækjum fyrir
alla og Junibacken-safnið er helgað
sænskum barnabókmenntum, með
sköpunarverk Astrid Lindgren í
öndvegi, enda stendur bronsstytta
af henni fyrir utan bygginguna.
Hægur vandi er að fara til Djur-
gården því þangað gengur sér-
stakur sporvagn sem hægt er að ná
víða um Stokkhólm.
Stokkhólmur,
forn og fagur
Það er heillandi upplifun að heimsækja Stokkhólm borgina sem kölluð er Feneyjar norðursins. Þó fáar borgir státi
af jafn viðamiklum og vel varðveittum borgarhluta frá miðöldum þá er hún í senn miðstöð hátísku og hönnunar.
Skemmtigarðurinn Gröna Lund er með fjölbreyttum leiktækjum fyrir alla
Allir hafa gaman af að skoða
heimkynni Línu Langsokks.
Auðvelt er að ferðast um þessa sögufrægu höfuðborg, ýmist með sporvögnum eða öðrum almenningssamgöngum.
Herskipið Vasa er hið eina í heiminum sem hefur varðveist frá 17. öld.