Skírnir - 01.04.2017, Blaðsíða 19
19sturlungaöld og ritun íslendingasagna
og Egils sögu.2 Grein Hauks um efnið bíður birtingar þegar þetta
er ritað.
Eins og oft hefur komið fram eru Laxdæla saga, Eyrbyggja saga
og Njáls saga, auk Egils sögu, varðveittar í svo gömlum handritum
að þær hljóta að vera samdar fyrir 1300. Af þessum dæmum má sjá
að ritun Íslendingasagna hafði náð fullum þroska á 13. öld. Fleiri
sögum má bæta í þennan flokk með textafræðilegum rökum.
Fóstbræðra saga, sem Sigurður Nordal taldi vera frá upphafi 13.
aldar, er varðveitt í Hauksbók, skrifuð þar á fyrsta áratugi 14. aldar.
Samkvæmt rannsókn Jónasar Kristjánssonar er texti sögunnar í
Hauksbók allmjög breyttur frá frumgerð. Jónas færði rök fyrir að
sagan væri miklu yngri en Sigurður Nordal hélt fram, en taldi þó
vitnisburð handritanna sýna að hún gæti ekki verið yngri en frá því
um 1300 (Jónas Kristjánsson 1972: 294). Sama á við um Heiðarvíga
sögu. Skinnhandritið sem varðveitir hluta hennar er naumast yngra
en 1300. Bjarni Guðnason andæfði þeirri hugmynd, sem margir
aðhylltust, að Heiðarvíga saga væri elst Íslendingasagna, frá því um
1200, en hann færir rök fyrir að hún hafi verið samin um 1260
(Bjarni Guðnason 1993: 176–263).
Ástæða er til að taka Vínlandssögurnar með í þetta yfirlit, þótt
ekki sé sjálfsagt að telja þær með Íslendingasögum. Ólafur Hall-
dórsson rannsakaði þessar sögur rækilega og dró meðal annars fram
rök fyrir ritunartímanum. Hvort sem menn eru niðurstöðum hans
að öllu leyti sammála eða ekki, væri fráleitt að ganga fram hjá þeim.
Ólafur sýndi fram á að sögurnar tvær, Eiríks saga rauða og Græn-
lendinga saga, væru óháðar hvor annarri, hvorug hefði haft áhrif á
hina, og benti á líkur til að báðar mundu vera frá því um 1200
(Ólafur Halldórsson 1978: 398–400, 1985: 367–395). Eiríks saga
rauða er í Hauksbók, eins og Fóstbræðra saga, og hún er einnig í
skírnir
2 Nýlega hefur verið varpað fram hugmyndum um að óvíst sé að Heimskringla öll,
sú sem við þekkjum úr útgáfum (Kringlu-gerðin), sé eftir einn höfund (Jonna
Louis-Jensen 2006). Það verður ekki rætt hér, en til að komast að réttri eða senni-
legri niðurstöðu þarf víðtækari rannsókn en þrönga textafræðilega könnun. Ég á
von á að rannsóknir Hauks Þorgeirssonar, sem áður var getið, muni varpa ljósi á
þetta viðfangsefni.
Skírnir vor 2017.qxp_Layout 1 31.3.2017 13:23 Page 19