Skírnir - 01.04.2017, Page 192
Það var rétt hjá þér að fara burt
Arthur Rimbaud
eftir René Char
Það var rétt hjá þér að fara burt, Arthur Rimbaud! Átján ára varstu
ónæmur fyrir vináttunni, rætninni, heimsku Parísarskáldanna og
ófrjóu býflugnasuði fjölskyldu þinnar í Ardenne, létt klikkaðri. Það
var gott hjá þér að spreða þeim í vindinn úti á rúmsjó, varpa þeim
undir hnífseggina á hinni hvatvísu fallöxi þeirra. Það var gott hjá
þér að segja skilið við slæpingjastrætið og leirskáldaknæpurnar og
hreppa í staðinn helvíti dýranna, kaupskap hinna slóttugu og
viðmót hinna óbrotnu.
Þessi fáránlegi eldmóður líkama og sálar, fallbyssukúlan sem
splundrar skotmarkinu um leið og hún hæfir það, já, þannig er ævi
mannsins rétt lýst! Þegar æskan er að baki er ekki endalaust hægt að
þjarma að náunga sínum. Þótt eldfjöllin haldi að mestu kyrru fyrir,
flæðir kvikan um hið mikla tómarúm heimsins og magnar það krafti
svo undir tekur í undum þess.
Það var rétt hjá þér að fara burt, Arthur Rimbaud! Við erum
nokkrir sem teljum, að óreyndu, að með þér sé hamingjan möguleg.
(Pétur Gunnarsson þýddi)
(Úr Fureur et mystère frá árinu 1948. René Char var enginn eftirbátur
meistara síns, Rimbaud, að því er torræðnina varðar. Georges Mounin sem
var einn helsti sérfræðingur í René Char játaði að eftir tuttugu ára umfjöllun
væri helmingurinn af verki Char honum framandi eða illskiljanlegur. En
að því er þetta sérstaka ljóð varðar mun helstu lykla að leita í ævi Arthurs
Rimbaud sjálfs. Upphafslínuna gerði Sigfús Daðason að einkunnarorðum
ljóðsins magnaða „Að komast burt“ sem birtist í Fáein ljóð 1977.)
192 pétur gunnarsson skírnir
Skírnir vor 2017.qxp_Layout 1 31.3.2017 13:24 Page 192