Skírnir - 01.04.2017, Blaðsíða 21
21sturlungaöld og ritun íslendingasagna
Nú má spyrja: Getur ekki verið að frumgerð sögu, sem var
samin á 13. öld, sé svo mikið breytt eftir endurritanir og umritanir
í 14. aldar handritum að tala megi um nýja sögu? Vissulega munu til
dæmi um það. Sú umræða kemur t.d. fram í formálum 13. og 14.
bindis Íslenzkra fornrita, en þar eru gefnar út sögur sem yfirleitt
eru taldar ungar. Þær hafa oftast skýr einkenni sem menn telja ung-
leg, en ytri rök eins og tilvísanir til efnis þeirra í eldri ritum benda
til að sumar þeirra kunni að hafa verið til ritaðar í einhverri mynd
á 13. öld.3
Orðaval, einkum notkun smáorða og samheita, orðaröð og fleiri
atriði setningaskipunar breytist ævinlega í eftirritun handrita, en
sjaldnast svo mikið að áhrif hafi á merkingu eða listræna gerð. Ekki
er sjálfkrafa hægt að gera ráð fyrir miklum breytingum. Svo kölluð
A-gerð Eyrbyggja sögu er aðeins til í ungum eftirritum eftir hinni
glötuðu skinnbók Vatnshyrnu frá lokum 14. aldar, en rétt er að
halda því til haga að annað aðaleftirritið er gert af Ásgeiri Jónssyni,
skrifara Árna Magnússonar, og Árna Magnússyni sjálfum (Már
Jónsson 2009). Því er haldið fram í fræðilegri útgáfu sögunnar að
A-gerðin sé umritun eldri miðaldagerðar sem varðveitt er í brotum
eða skertum handritum á skinni; elst þeirra er AM 162 E fol, frá því
um 1300 (jafnvel aðeins eldra er haft eftir Jóni Helgasyni), hin frá 14.
og 15. öld (Eyrbyggja saga 2003, xiii og 42*). Samanburður text-
anna virðist mér þó leiða í ljós að mismunur gerðanna sé að mestu
leyti harla tilviljunarkenndur orðalagsmunur eða stílmunur sem
engu breyti um gang sögunnar eða túlkun hennar. Öll miðalda-
handrit Eyrbyggju og A-gerðin segja sömu söguna með sömu
aðferð og sama eða svipuðu orðalagi. Elsta handritið sýnir að sagan
hlýtur að vera samin á 13. öld í þeirri mynd sem við þekkjum hana.4
skírnir
3 Þær sögur sem einkum hafa verið nefndar eru: Grettis saga, Harðar saga, Gull-
Þóris saga (eða Þorskfirðinga saga), Hávarðar saga, Svarfdæla saga. Ekki eru þessar
kenningar óumdeildar, og nokkuð veltur á því hvort eldri tilvísanir til sagna, t.d.
í Sturlubók Landnámu, vísa alltaf til ritaðra texta, sem ekki þarf að vera.
4 Vitaskuld þarf að hafa þann fyrirvara að textinn er ekki heill í neinu þessara hand-
rita, en því sem varðveitt er ber vel saman. Ég fjallaði um þetta atriði í ritdómi, sem
birtist 2005, en hafði ekki rými til að birta þar nema eitt af fjórum samanburðar-
dæmum sem ég tók og gerði grein fyrir í fyrirlestri sem fluttur var í Bergen í apríl
2005.
Skírnir vor 2017.qxp_Layout 1 31.3.2017 13:23 Page 21