Skírnir - 01.04.2017, Síða 106
Svo virðist sem ræst hafi úr stöðunni því samkvæmt verslunar -
skýrsl um var töluvert flutt inn af postulíni frá Japan frá og með
árinu 1931. Einnig fann Jóhann aðrar vörutegundir sem hentuðu ís-
lenskum markaði, svo sem gúmmístígvél, strigaskó og fatnað, sem
fluttar voru inn í talsverðu magni í kjölfar fyrri Japansferðar hans.51
Ekki var þó vandalaust að finna fatnað sem hentaði Íslendingum.
Dæmi um það eru karlmannsskyrtur, sem Jóhann reyndi fyrir sér
með, en þegar til átti að taka hentuðu stærðir og snið illa fyrir land-
ann.52 Mörg bréf, sem varðveitt eru úr ferðinni 1933, sýna glöggt hve
ítarlega Jóhann kannaði vöruúrvalið í Japan og hvernig hann kapp-
kostaði að ná sem hagkvæmustum viðskiptum. Áherslan var sem
fyrr á postulínið en Jóhann skoðaði einnig ýmsan annan japanskan
varning, allt frá kvensokkum til ljósapera, og valdi úr þær vörur sem
samræmdust kröfum hans um verð og gæði. Sú nýbreytni stendur
upp úr varðandi innflutning Jóhanns að hann lét sérhanna kaffistell
fyrir Íslandsmarkað með góðum árangri; stellin sameinuðu japanskt
handverk og hagstætt verð, og vinsæl íslensk „mótíf“. Jóhann skrifar
frá Japan:
Lét Nippon Toki Kaisha búa til ný kaffistell, bolla og kökubáta ílanga. Þeir
setja Gullfoss, Skógarfoss og Þingvelli á nýju stellin. Sá myndirnar málaðar
og held að þær séu fyrirtak og miklu betri en Katla. Tók mikið af stellum
með þessum ísl. myndum, talsvert af sykursettum, kökubátum, bollum og
könnum o.fl. Þeir eru að verða liprir nú.53
Japansk-íslensku kaffistellinn áttu miklum vinsældum að fagna hér
á landi, m.a. til brúðargjafa. Að sögn fjölskyldu Ólafs keyptu margir
þeirra sem fluttu til Vesturheims Íslandsstellin til minja um gamla
landið. Nýju stellin kostuðu 75 krónur, eða u.þ.b. þrisvar sinnum
meira en venjuleg japönsk stell, en seldust öll engu að síður, enda lík-
106 kristín ingvarsdóttir skírnir
50 Bréf frá Jóhanni Ólafssyni til Björns Arnórssonar, Osaka 13. febrúar 1931 (í eigu
fjölskyldu Jóhanns).
51 Sjá yfirlit yfir innflutning frá Japan í Verslunarskýrslum Hagstofunnar, 1931–
1941. Líklegt er að Jóhann hafi staðið fyrir megninu af innflutningi frá Japan á
þessum árum.
52 Viðtal höfundar við Jóhann J. Ólafsson, sumar 2015.
53 Bréf frá Jóhanni Ólafssyni til Björns Arnórssonar, Japan 19. mars 1933 (í eigu fjöl-
skyldu Jóhanns).
Skírnir vor 2017.qxp_Layout 1 31.3.2017 13:23 Page 106