Skírnir - 01.04.2017, Síða 262
ekki síst miðað við annir Harðar á þessu tiltekna ári — að álykta að
hún hafi þá orðið til seinni hluta sumars eða um haustið 1957.
Mér þykir eðlilegt að líta á myndina í Gagnfræðaskólanum á
Siglufirði sem hyllingu til æskunnar, eins konar landaparís fyrir
augun. Hinu óskipulega, tilviljunarkennda og glaðlega, litríkum
ferningunum (fjórum appelsínugulum, þremur rauðum, grænum,
bláum og svörtum), sem sáldrað er yfir flötinn, er beint í ákveðna
farvegi samkvæmt stöðluðu mátkerfi. Sem er augljós myndlíking
fyrir skólastarf. Alla jafna var Hörður frábitinn skírskotun til ytri
veruleika í strangflatamyndum sínum: form, litir og hrynjandi áttu
að lifa þar sjálfstæðu lífi, sbr. ummæli hans hér að framan. En eins
og áður hefur verið getið lýsti Hörður fyrir Jóni Dýrfjörð hvað lit-
irnir í myndinni ættu að tákna. Undirstaðan, sjálfur korkurinn, átti
að tákna mold eða jörð, grænt var vísan til gróðurs, rautt til sólar og
elds, blátt til himins og svart til nætur. Þar með er grundvöllur fyrir
því að líta á meginstefið, sem ég mundi kalla „leik og þroska“, í sínu
víðasta samhengi, sem hluta af alheimsmyndinni (cosmos).
Hver verða svo afdrif þessarar veggmyndar? Víst er að hún á sér
tæplega framtíð þar sem hún er í dag, í anddyri fjölbýlishúss. Og
ekki tekur því að gera við hana, þar eð sérfræðingar hafa úrskurðað
hana ónýta. Hins vegar telur Viktor Smári forvörður að auðvelt sé
að endurgera myndina frá grunni, annaðhvort á staðnum eða til
flutnings hvert á land sem er, ekki síst vegna þess að upprunalegar
korkflísar og litir séu enn fáanleg. Sjálfur er hann búinn að mæla
myndina upp, teikna í smáatriðum og taka litasýni úr máluðu svæð -
unum, til undirbúnings slíkri endurgerð, hugnist hún núverandi eig-
endum jafnt sem ættingjum Harðar Ágústssonar. Til hliðsjónar
hefur Viktor Smári flutning danskra forvarða á viðkvæmum vegg-
myndum eftir Asger Jorn úr sumarbústað á eyjunni Lesø á Eyrar-
sundi yfir í listasafnið Arken á Sjálandi.
Þar sem myndin í gagnfræðaskólanum er sannarlega hluti af
myndlistarlegri arfleifð Siglufjarðar, færi best á því að hún yrði
áfram sýnileg í bænum, annaðhvort í vörslu hins opinbera, bæjar-
ins sjálfs eða öflugra einkaaðila. Vonandi bera Siglfirðingar gæfu til
að leiða það mál til lykta með farsælum hætti.
Aðalsteinn Ingólfsson.
262 aðalsteinn ingólfsson skírnir
Skírnir vor 2017.qxp_Layout 1 31.3.2017 13:24 Page 262