Saga - 2006, Page 5
F O R M Á L I R I T S T J Ó R A
Beint lýðræði, fulltrúalýðræði, barátta fyrir jafnrétti kynjanna, mikilvægi
Sameinuðu þjóðanna, erlend stóriðja, íslensk þjóðernishyggja, umsvif
danskra kaupmanna á Íslandi, sýn Dana á íslenska fortíð, mikilvægi
neyslumenningar og aldagömul Íslandslýsing; þetta eru nokkur þeirra
atriða sem höfundar efnis í þessu hefti Sögu taka til gagnrýninnar um -
fjöllunar. Um leið gæti þessi upptalning verið bergmál þeirrar opinberu
umræðu sem átt hefur sér stað hér á landi undanfarna mánuði og misseri.
Þessi endurómun sýnir vel hversu náin tengslin geta verið milli fortíðar og
samtíðar; hún minnir okkur um leið á það hve brýnt erindi margir
rannsakendur fortíðarinnar eiga við samtíð sína.
Í fyrstu grein þessa heftis fjallar Kristín Ástgeirsdóttir um áhrif fjögurra
kvennaráðstefna, aukaallsherjarþings og stórfunda Sameinuðu þjóðanna
frá 1975 til samtímans, en samtökin gerðu árin 1976–1985 að kvennaáratug.
Kristín færir rök fyrir því að þetta frumkvæði Sameinuðu þjóðanna hafi
haft mikil áhrif á íslenska jafnréttisbaráttu á síðustu þremur áratugum, mis -
mikil þó eftir því til hvaða sviðs samfélagsins sé horft. Breytingar á vinnu -
markaðnum hérlendis hafi t.d. verið hægari en á öðrum sviðum. Íslensk
jafn réttisbarátta síðustu áratuga reis oft hæst með miklum fjöldafundum,
en slíkar tilraunir til beinna áhrifa á samfélagið eru einmitt aðalviðfangs -
efni greiningar Svans Kristjánssonar á sambýli beins lýðræðis og full -
trúalýðræðis kringum aldamótin 1900. Við þá greiningu notar hann
einkum umræður um áfengisbann en lög um slíkt bann voru sett 1909 í
kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslu. Beint lýðræði kemur einnig við sögu í
viðhorfsgrein Ingólfs Ásgeirs Jóhannessonar þar sem hann greinir nýlega
orðræðu um umhverfismál í samfélaginu, en aukin þátttaka almennings í
henni hefur vakið athygli. Ingólfur færir rök fyrir því að þátttakendur í
umræðunni, hvaða skoðanir sem þeir hafa, beiti fyrir sig rökum sem séu
mótuð af þjóðernishyggju.
Frá því að sjálfstæðisbaráttunni lauk hafa umræður um samskipti
Íslendinga og Dana sjaldan verið jafn fyrirferðarmiklar í fréttum og síðustu
misserin. Tvær greinar tengjast þessum samskiptum. Annars vegar ritar
Anna Þorbjörg Þorgrímsdóttir sjónrýni um merka íslenska miðaldagripi í
vörslu Þjóðminjasafns Danmerkur. Hún bendir á að framsetning á
miðaldagripunum á grunnsýningu safnsins í Kaupmannahöfn byggist á
gamalli hefð, þar sem íslenskir miðaldagripir eru valdir til sýninga með
það að leiðarljósi að fylla í skörð danskra menningarminja. Grunnur hins
sögulega samhengis sýningarinnar — miðaldasaga dansks „þjóðríkis“—
veldur því að aldalöng íslensk saga gripanna týnist og ný og tilbúin saga
Saga haust 2006 - TAFLA:Saga haust 2004 - NOTA 12.12.2006 13:40 Page 5