Saga - 2011, Blaðsíða 119
fyrir sér hverjir hafi verið raunverulegir eigendur þess eignarhluta
í Eglu, sem Hauck & Aufhäuser var skráður fyrir.56 Undarlegt má
heita að þýski bankinn skyldi ekki taka stöðu í Búnaðarbankanum
úr því að fjárfestingin átti að vera til að minnsta kosti tveggja ára.
Sú spurning vaknar hvort kaupin á hlutnum í Eglu hafi ekki
getað raskað verulega starfsgetu hans í Þýskalandi, en þess sá
hvergi stað í uppgjörum.57 Að framangreindu virtu er nánast úti-
lokað að Hauck & Aufhäuser-bankinn hafi verið raunverulegur eig-
andi umrædds eignarhlutar í Búnaðarbankanum.
Valgerður Sverrisdóttir viðurkennir að ágallar voru á tilboði
þeirra sem fengu að kaupa Búnaðarbankann. Hún hafi þó engu að
síður skrifað undir söluna fyrir hönd ríkisins þar sem hún hafi treyst
hinum erlendu ráðgjöfum.58 Valgerður kveðst ekki hafa haft vit-
neskju um það fyrr en degi áður en Búnaðarbankinn var seldur
hvaða erlenda fjármálastofnun var í slagtogi með S-hópnum. Henni
hafi verið tjáð, og framkvæmdanefndinni sömuleiðis, að með S-
hópnum væri stór og traustur franskur banki, en „degi fyrir undir-
skrift kom í ljós að um óþekktan svissneskan [þýskan] banka var að
ræða“, Hauck & Aufhäuser. Bankinn var raunar svo lítt þekktur að
umræður spunnust um það á Alþingi hvort hann væri til í raun og
veru. „Það er mjög gagnrýnivert og alveg með ólíkindum,“ segir
hún. Valgerður taldi þó ekki annað hægt en að skrifa undir, enda
hefði erlent ráðgjafafyrirtæki lagt það til.59
Afar hæpið má telja að stjórnmálamenn, sem bera hina pólitísku
ábyrgð, geti skýlt sér á bak við álit erlendra ráðgjafa. Ráðgjafar í
þessari stöðu hafa það eina hlutverk að aðstoða seljanda á þeim for-
sendum sem hann gefur sér. Seljandi hefur það ætíð í hendi sér
hvernig hann metur þau tilboð sem koma fram, ráðgjafar hafa ekk-
ert vald til að taka ákvarðanir í þeim efnum. Hafi hinir erlendu
ráðgjafar „lagt“ nokkuð til þá má spyrja sig hvort álitið hafi verið
pantað. Slíkt væri þó algjörlega á skjön við erlenda framkvæmd í til-
fellum sem þessu.60
sagan af einkavæðingu búnaðarbankans 119
56 Viðtal. Höfundur við annan ónafngreinda heimildarmann (úr viðskiptalífinu).
57 Ársreikningur Hauck & Aufhäuser fyrir árin 2003 og 2005.
58 Vef. „Valgerður staðfestir að mistök voru gerð við einkavæðingu á bæði Lands -
banka og Búnaðarbanka“, www. mbl.is, 13. apríl 2010, sótt í september 2010.
59 Viðtal. Höfundur við Valgerði Sverrisdóttur, 2. september 2009.
60 Þetta hefur komið fram í samtölum höfundar við nokkra menn sem eru gjör-
kunnugir samskiptum við alþjóðlega ráðgjafa af þessu tagi.
Saga haust 2011 NOTA_Saga haust 2004 - NOTA 11/24/11 9:52 AM Page 119