Saga - 2011, Blaðsíða 148
Helgi Skúli Kjartansson tekur saman röksemdir mínar á þá leið að „óbein
rök“ sem ég nýti kenningu minni til staðfestingar séu „að niðurstöður fyrri fræði-
manna séu gallaðar og ósannfærandi og þar reki sig eitt á annars horn“. Þessi
„óbeinu rök“ eru þó alls ekki hluti af röksemdafærslu minni, heldur býr Helgi
Skúli þau til. Í mati mínu á þessum skjölum tekst ég á við umfjöllun og rök all-
margra fræðimanna sem hafa reynt að flokka og tímasetja öll varðveitt eintök
meintra sáttmála. Ég hef hins vegar ekki reynt að endurgera textana með betr-
umbótum, lagfæringum eða öðrum aðferðum textafræðinnar. Engu að síður
þreytist Helgi Skúli ekki á því að gagnrýna mig fyrir að skjóta niður kenningar
sem hann telur vera „úreltar“. Sú sannfæring hans að ég geri of mikið úr gamal-
dags kenningum, með því að ræða fremur niðurstöður sumra fræðimanna en ekki
annarra, leiðir hann síðan að þeirri niðurstöðu að greining mín á fyrri
fræðimennsku sé „villandi“. Það á ekki við rök að styðjast og ég fæ ekki betur séð
en að greining mín standist, jafnt á fyrri fræðimennsku sem á skjölunum sjálfum.
Að því undanskildu að mér skjátlaðist um aðild Magnúsar konungs Hákonar -
sonar að umsvifum föður hans, Hákonar Hákonarsonar — atriði sem skiptir litlu
máli fyrir röksemdir mínar í heild — þá sýnist mér ég ekki þurfa að breyta neinu
um meginkenningu mína. Ég ætla þó að útfæra nokkur mikilvæg atriði, ekki síst
um það hvernig á því stendur að Gamli sáttmáli birtist skyndilega í handritum á
15. öld.
Ég vil byrja á því að nefna eigin mistök í umfjöllun um Gizurarsáttmála eða
Gamla sáttmála frá 1262. Gizurarsáttmáli gefur sig út fyrir að vera það sam-
komulag sem nefnt er í Sturlungu og Hákonar sögu á milli annars vegar
Noregskonungs og hins vegar Íslendinga á Suðurlandi og Norðurlandi árið 1262.
Skjalið er varðveitt í handritinu AM 45 8vo og því lýkur á hollustueið við kon-
ungana Hákon og Magnús. Konungsannáll og Lögmannsannáll geta þess að
Íslendingar hafi svarið báðum konungum hollustueið árið 1262 og þar kemur
einnig fram að Magnús hafi tekið við konungstign fimm árum áður. Enn meiru
varðar að í Járnsíðu (mannhelgi 7) kemur fram að Magnús starfaði með föður sín-
um. Það að Magnús skuli vera nefndur í eiðnum, hafi hann verið unninn árið
1262, er þarafleiðandi ekki tímaskekkja ef miðað er við sáttmálatextann í AM 45
8vo, eins og ég hef fullyrt. Það að báðir konungarnir skuli vera nefndir í sátt-
málatextanum eins og hann birtist í handritinu Germ 2065 4to kann aftur á móti að
vera tímaskekkja. Ólíkt textanum í AM 45 8vo er sáttmálinn í Germ 2065 4to
sagður vera á milli bænda á Íslandi og konunganna Hákonar og Magnúsar, en ef
marka má sögur og annála var allt landið ekki komið undir Noregskonung fyrr
en árið 1264, og þá var Hákon látinn.
Helgi Skúli eyðir miklu púðri í það að ég skuli ekki fara í saumana á grein
Jóns Jóhannessonar „Réttindabarátta Íslendinga í upphafi 14. aldar“. Líkt og Helgi
Þorláksson álítur Helgi Skúli að Jón leggi fram einfaldaða mynd af sáttmálatext-
unum í því skyni að komast hjá þeim túlkunarvanda og tímaskekkjum sem útgef-
endur Fornbréfasafns lentu í. Sú einfaldaða mynd hafði hins vegar verið útfærð
löngu áður af Konrad Maurer, Peter Andreas Munch og síðar Birni Ólsen, og ég
legg mat á röksemdir þeirra. Grein Jóns Jóhannessonar bætti engu við og andstætt
því sem Helgi Skúli og Helgi Þorláksson fullyrða þá leggur Jón ekki vandað mat
á textana sem slíka eða samhengi þeirra.
patricia pires boulhosa148
Saga haust 2011 NOTA_Saga haust 2004 - NOTA 11/24/11 9:52 AM Page 148