Tímarit Máls og menningar - 01.06.2015, Side 20
K r i s t í n Ó m a r s d ó t t i r
20 TMM 2015 · 2
þá sérstaklega flutning á verkum gömlu kempnanna (misgömlu þó), sem
smyr skrifstöðvarnar eins og örvandi efni. Þessa dagana hlustar Tóti meira
á óperutónlist þegar hann skrifar svo hann á til að blasta Pavarotti yfir allt
hús meðan ég er með píanóið í heyrnartólunum. Um daginn gleymdi ég mér
þó í sjö klukkustundir með blússandi Mahler á rípít og hef sennilega gleymt
að skipta um stellingu því ég gat ekki gengið daginn eftir út af verkjum, ég
hélt ég væri orðin ein af þessum konum sem fæða barn óforvarindis, án þess
að vita af getnaðinum fyrr en í miðjum hríðum. Stundum þarf ég takt og
hlusta á Lady Gaga, TATU, Siu eða bara Kraftwerk. Já, það er annaðhvort
píanótónlist í klassískum anda eða tónlist með miklum takti. Samt, það var
Neil Young, tónlistin í Dancer in the Dark og David Bowie þegar ég skrifaði
Fólkið í kjallaranum. Stundum Charles Mingus eða Ella Fitzgerald, eitt-
hvað djassað, þegar ég er að glósa hugmyndir. Spænskt dósapopp þegar ég
skrifaði Vetrarsól, eins og lagið um samkynhneigða hryðjuverkamanninn frá
Teheran úr einhverri Almadovar-myndinni. Nýja sagan, sem ég er að skrifa
núna, hefur notið góðs af tónsmíðum Daníels Bjarnasonar jafnt sem Kate
Bush. Svo um daginn fór ég á tónleika með Víkingi Heiðari hérna í Berlín,
þar sem hann spilaði í gamalli verksmiðjuskemmu í boði læknis nokkurs,
mjög svo prúðbúins með þverslaufu, sem safnar eldgömlum flyglum og
býður upp á ennþá eldra rauðvín í hléinu. Ég hafði ekki tölu á flyglunum
þarna inni en eftir nokkra rauðvínssopa, um það leyti sem píanistinn var
á lokatónunum í hljómmiklu verki eftir Schumann, vissi ég allt í einu, eða
öllu heldur loksins, hvernig nýja sagan ætti að enda. Vissan magnaðist upp í
trylltum fagnaðarlátunum á eftir, þó að þau beindust að Víkingi en ekki mér.
Þú leikur á píanó?
Ég lærði hjá Helgu afasystur minni sem var píanókennari í Reykjavík, hún
var mjög hógvær kona og sagði alltaf að afi minn [Halldór Laxness] væri
athyglissjúkur, hún borðaði alltaf hjá okkur á sunnudögum en bjó í íbúð
á Laugavegi og stytti sér stundir við það að horfa á fólkið út um gluggann
og vildi stundum ekki koma uppeftir afþví hún vildi frekar horfa á fólkið.
Mér fannst gaman að fara í tímann afþví að hún bakaði alltaf handa mér
appelsínuköku, svo fékk ég mjólk í pínulitlu glasi á eftir. Hún hafði lært í
Leipzig þegar hún var ung. Mér þótti mjög vænt um hana. Hún var yfir sig
hrifin af Kristjáni Jóhannssyni óperusöngvara og horfði alltaf á sápuóperu
á Stöð 2 ruglaða. Hún var örugglega tónelskasta manneskja sem ég hef hitt,
elskaði að hlusta á óperur, kenndi krökkum að spila í litlu íbúðinni á horni
Snorrabrautar og Laugavegs. Hún var lærður einleikari en hún var of feimin
til að koma fram. Flugbeitt í öllu sem hún sagði, samt svona hógvær og
ofsalega fínleg kona. Þegar hún dó hjálpaði mamma mér að skrifa minn-
ingargrein um hana, ég var átján ára og fékk mikið hrós fyrir en eiginlega
var það mamma sem skrifaði greinina, bara svo það komi nú loksins fram;
þær voru svo nánar. Helga var barnlaus og bjó alltaf ein.