Tímarit Máls og menningar - 01.02.2005, Blaðsíða 4
Frá ritstjóra
Þá hefur annar árgangur nýs flokks Tímarits Máls og menningar göngu sína. Að vísu
hafa áskrifendur enn ekki náð töfratölunni þúsund en ekki munar nema nokkrum
tugum. Yfirleitt eru viðbrögð við efni góð ef marka má bréf til ritstjóra, þó olli skáld-
skapargrein Eiríks Arnar Norðdahl í 3. hefti einni uppsögn. Eiríkur sagði þó ekki
annað en að tími hins skorinorða ljóðs væri nú loksins kominn; það er aldagamalt
stef í íslenskri bókmenntasögu sem þarf að ítreka alltaf við og við.
Arndís las 3. heftið seint og taldi að tregða sín hefði eitthvað með forsíðumyndina
að gera - hún var af fótboltamönnum. „Skemmst er frá því að segja að þrátt fyrir hátt
magn íþróttaumfjöllunar í blaðinu skemmti ég mér hið besta við lestur þess, og
skríkti svo eins og barn þegar fjórða heftið datt inn um bréfalúguna mína. Hver
greinin á fætur annarri fjallar um mál sem brenna á mönnum ... Fantasíuútgáfan á
íslensku, staða ljóðsins, óvenjumikil umfjöllun um fjölmiðla, allt er þetta svo að segja
,í deiglunni' þessa dagana.“
„Ég er ekki búin að lesa alveg síðasta eintak af tímaritinu," skrifar Dísa, „það er
eins og sælgæti hjá börnum, ég maula á því hægt og rólega. Fyrst les ég ljóðin og
reyni að skilja þau en það gengur misvel, þá tek ég til við það sem mér finnst mest
spennandi að lesa, svo les ég ljóðin með til að skilja þau kannski, svo fer ég ítarlega í
annað efni, en hægt, og ljóðin á milli svo undir það síðasta er ég farin að þekkja þau
einna best.“
Frá Þorbjörgu Arnórsdóttur á Þórbergssetri barst þessi kveðja: „Aldeilis var
gaman að lesa bréf Þórbergs í Tímariti Máls og menningar á dögunum, ég veltist um
af hlátri og við sem þekktum Þórberg og Margréti sjáum þau birtast þarna ljóslif-
andi.“
Böðvar gerði ítarlega úttekt á efni 4. heftisins í bréfi og var sérstaklega hrifinn af
smásögu Guðrúnar Evu. Einnig þótti honum eins og fleirum fengur að bréfi Þór-
bergs og vill fá fleiri sendibréf góðra bréfritara. „Daginn sem skipið sökk er vel skrif-
aður, skemmtilegur og fræðandi þáttur. Það var svolítið gaman að lesa hann rétt eftir
að ég lauk við bók Gerðar Kristnýjar,“ segir Böðvar. „Bónorð eftir Bjarna Bjarnason
fannst mér vel skrifuð og athyglisverð grein á allan hátt. Fleira en augað sér eftir
Dagnýju Kristjánsdóttur er ágæt grein. Dagný er alltaf svo skemmtilega ótradisjón-
ell í túlkun.“
Böðvari finnst „Menningarvettvangurinn" góð nýjung en setur spurningarmerki
við lengd hans í hlutfalli við aðra efnisþætti. Sama hafa fleiri nefnt eftir síðasta hefti
en þar varð þessi hluti stærri en áður. Það verður fylgst með honum.
Með þessu hefti er ykkur boðið að setja árgjaldið á greiðslukort. Ef þið hafið ekki
sent eyðublaðið útfyllt til ritstjóra um miðjan mars fáið þið sendan greiðsluseðil eins
og í fyrra.
Silja Adalsteinsdóttir
2
TMM 2004 • 4