Tímarit Máls og menningar - 01.02.2005, Qupperneq 28
Katrín Jakobsdóttir
Þegar Erlendur ræðir við breskan plötusafnara kemur fram að honum
finnst fortíðin lítils metin á íslandi: „Hér virðist ekki vera mikill áhugi á
að varðveita neitt. Hér á allt að vera nýtt. Allt sem er gamalt er drasl.“42
Síðar kemur fram að Erlendur hlustar ekki á nýja tónlist. (118) Hann
heldur dauðahaldi í fortíðina á öllum vígstöðvum vegna þess að þannig
heldur hann í bróður sinn sem hann kennir sjálfum sér enn um að hafa
misst.
í öllum lögreglusögum Arnaldar, nema helst Dauðarósum, liggur
lausnin í fjarlægri fortíð og það þarf að grafa til baka, róta í gömlum
skjölum og tala við þá sem muna til að leysa málin. Þetta er samkenni
glæpasagna; allar skýringar liggja eðli málsins samkvæmt í fortíð. Þessi
hneigð er þó sérlega áberandi í sögum Arnaldar, t.d. í Grafarþögn þar
sem líkið finnst á mörkum borgar og sveitar, þ.e. í Grafarholtinu - og
reynist gamalt, svo gamalt reyndar að Sigurði Óla fínnst tilgangslaust að
leysa málið:
- Þetta er eins og að eltast við drauga. Við eigum aldrei eftir að hitta neitt af þessu
fólki og tala við það. Þetta eru allt saman draugar í draugasögum. [...]
- En langar þig ekkert að vita hver liggur þarna uppfrá með höndina upp í
loftið eins og hann hafi verið grafmn lifandi?
- Ég er búinn að dúsa í skítugri kjallaraholu í tvo daga og gæti ekki staðið
meira á sama, sagði Sigurður Óli. Gæti ekki staðið meira á sama um allt þetta hel-
vítis kjaftæði, sagði hann til áhersluauka og sleit símtalinu.(195)
Hér kemur innskot sögumanns þegar Sigurður Óli endurtekur sig og
bætt er við „til áhersluauka“ sem gerir Sigurð að yfirborðslegri persónu
sem um leið vekur kátínu lesenda. Fyrir Sigurði Óla eru persónur morð-
málsins aðeins draugar og málið því óáþreifanlegt en Erlendur stjórnast
af þekkingarþrá og um leið ákveðinni fortíðarþrá. Og fortíðin er nátengd
sveitinni.
I Grafarþögn er lögð áhersla á hreyfingu úr sveit í borg en þó ekki á
sama hátt og í Dauðarósum þar sem lýst er fólksflutningum af lands-
byggðinni í borgina. f Grafarþögn verður sveitin að borg þegar farið er
að byggja í sveitinni. Þetta er gert með því að segja söguna á tveimur
tímasviðum. Hún hefst í Grafarholtinu, nýjasta hverfi Reykjavíkur, en
þegar horfið er aftur til fortíðar er sagt frá hjónum sem búa í sumarbú-
stað í Grafarholtinu sem þá tilheyrir sveitinni.
Dregin er upp mynd af Reykjavík í mótun, fjallað um húsnæðisleysið
á þeim tíma - hjónin þurfa að búa í sumarbústað - og einnig áhrif
erlends herliðs í landinu. Eitt sinn var Grafarholtið sveit og því er lýst
hvernig Mikkelína, sem ólst upp í téðum sumarbústað í holtinu, hefur
26
TMM 2005 • 1