Tímarit Máls og menningar - 01.02.2005, Side 29
SöGULJÓÐ BORGARINNAR
séð Reykjavík vaxa og teygja sig fyrst upp í Breiðholtið, svo í Grafarvog-
inn og loks upp í Grafarholtið (254). Margítrekað er hversu langan tíma
tekur að komast upp í holtið, það virðist alltaf taka að minnsta kosti
fimmtán mínútur og stundum lengri tíma.43 Þessar vegalengdir mynda
samhljóm við holtið í gömlu frásögninni þar sem það er mjög afskekkt
og hægt að fremja glæpi án þess að nokkrir nágrannar sjái til. „Kannski
er hlaupinn ofvöxtur í borgina, sagði Erlendur.11 (28) Miðað við íbúa-
fjölda er Reykjavík dreifð borg og teygir sig yfir stórt svæði. Ný úthverfi
eru byggð á landi sem áður var sveit en hverfin bera þess merki - þau eru
langt frá miðbænum, tiltölulega afskekkt þó að þau heyri borginni til.
Erlendur orðar því vafalaust hugsun margra þegar hann talar um ofvöxt-
inn í borginni.
í Grafarþögn endurspeglar formgerðin sögusvið og ljær því aukinn
þunga. Sagan er byggð upp sem leit nútímamanna að fortíðinni;
Erlendur, Sigurður Óli og Elínborg þurfa að leysa gamalt morðmál með
því að setja sig inn í fortíðina, ræða við gamalt fólk og kynna sér söguna,
róta í gömlum bréfum og bókum. En þessi leit nútímans að fortíðinni
endurspeglast í sögusviðinu þar sem borgin er smám saman að taka yfir
sveitina. Þar sem einu sinni var sveit rís nú borg sem þenst út og eltir
sveitina í kringum sig. Þannig haldast tími og rúm í hendur í uppbygg-
ingu sögunnar.
Það er áberandi í sögum Arnaldar að hugsað er um borgina, þ.e.
Reykjavík, í andstöðu við sveitina eða landsbyggðina. Enda hefur
umræða um gríðarlega fólksfjölgun á höfuðborgarsvæðinu á kostnað
landsbyggðarinnar lengi verið áberandi. Margir Reykvíkingar eiga ættir
að rekja út á land - foreldra eða afa og ömmur - og mætti ætla að tengsl
borgarinnar við sveitina væru sterk. Því er vart hægt að tala um Reykja-
vík án þess að tala líka um sveitina. Arnaldur fjallar um flutninga úr sveit
í borg á nýjum grundvelli með því að fella það inn í formgerð glæpasög-
unnar.
ftalski arkitektinn Aldo Rossi hefur skilgreint borgina sem sameigin-
lega minningu íbúa sinna. í hugmyndinni um borgina renni fortíð og
framtíð saman. Þannig móti hugmyndir og minningar manna á hverjum
tíma borgina en um leið móti borgin mennina.44 Reykjavík í sögum Arn-
aldar er fundarstaður þar sem fortíð og framtíð mætast; borg og sveit -
og um leið fundarstaður íbúanna sem þurfa að glíma við þessar sömu
andstæður í sköpun sjálfsmyndar sinnar. Reykjavík mótar hugmynd íbú-
anna um sveitina en um leið mótar minning Reykvíkinga um sveitina
borgina - kannski er Reykjavík tiltölulega strjálbýl vegna þess að íbúarnir
hafa þörf fyrir að halda í minninguna um sveitina.
TMM 2005 • I
27