Tímarit Máls og menningar - 01.02.2005, Qupperneq 66
Heimir Pálsson
húsum löðrungar Ástu Sóllilju og segir henni að hann sé ekki faðir
hennar og rekur hana að heiman. Orð höfundar um það sem síðan ger-
ist eru þessi:
... þetta högg sem hann gaf henni að kveðju, það var sannleiksaugnablikið í lífi
þeirra beggja. Fram að þeirri stundu hafði líf þeirra beggja, hvors gagnvart öðru,
verið ósatt líf, upplogið líf. Hún hafði lifað hjá honum í tröllahöndum, og haldið
að hún væri tröll sjálf. Svo stendur hún hér allt í einu fyrir dyrum úti, og upp-
götvar að hún er ekki tröllaættar. Á snöggu augabragði var hún orðin frjáls af
þessu trölli, hún var aðeins mennskur maður, kannske prinsessa eins og Mjallhvít
og aðrar æfintýrastúlkur, og átti honum ekkert upp að unna. Burt (1935:176;
leturbreyting mín).
Hér er enginn hörgull á textavenslunum. Okkur er vísað í Mjallhvítarsög-
una og ekki síður íslenskar þjóðsögur um konur sem eru komnar í bland
við tröllin. En ég var raunar búinn að lesa þetta off áður en ég tók allt í
einu eftir orðunum „á snöggu augabragði“ og skildi um leið að hér var
texti að tala við texta." Það er enginn vafi á að höfundur sótti þessi orð
viljandi í algengasta jarðarfararsálm íslendinga, kvæði Hallgríms Péturs-
sonar „Um dauðans óvissan tíma“, þar sem standa þessar línur í upphafs-
erindi:
Allt eins og blómstrið eina
upp vex á sléttri grund
fagurt með frjóvgan hreina
fyrst um dags morgunstund
á snöggu augabragði
afskorið verður fljótt,
lit og blöð niður lagði
líf mannlegt endar skjótt.
f næsta erindi er talað um sláttumann og farið um svofelldum orðum:
Dauðinn má svo með sanni
samlíkjast, þykir mér,
slyngum þeim sláttumanni
er slær allt hvað fyrir er,
grösin og jurtir grænar,
glóandi blómstrið frítt,
reyr, stör sem rósir vænar
reiknar hann jafnfánýtt.
Bjartur í Sumarhúsum hefur þegar þetta er sagt í sögunni slegið stúlkuna
og reitt til höggs gegn móður hennar. Sá atburður er þess virði að vera
rifjaður upp:
64
TMM 2005 • 1