Tímarit Máls og menningar - 01.02.2005, Qupperneq 67
ÞrIr risar
Og hér var Bjartur í Sumarhúsum orðinn svo vondur, að hann spratt fram úr
rúminu og svipti sænginni ofan af konu sinni hálfnakinni, eins og honum væri
efst í huga að strýkja hana. En þá varð konan hrædd og reis upp á hnén í rúminu
og lagði armana um háls honum og fór að sverja honum dýra eiða, hún hefði
einskis karlmanns kennt, og allra sízt og allra sízt og allra sízt, - guð minn almátt-
ugur hjálpi mér ef ég lýg, ég veit það eru álög á þessu stekkjartúni, bærinn hefir
verið sjö sinnum rofinn af afturgöngum og púkum, og hvað gagnar það, þó þú
kallir bæinn þinn Sumarhús, ef þú ætlar að drepa konuna þína á brúðkaupsnótt-
ina, og gefa honum Kólumkilla beinin mín ... (1934:56).
Önnur hét Rósa, hin Lilja. Á viðkvæmum stundum kallaði hann Ástu
Sóllilju „blómið sitt“ og kveðjuorð hans til Rósu voru „Rósin mín“. Hann
orti meira að segja: „því hvað er auður og afl og hús / ef engin jurt vex 1
þinni krús?“ (1935:281) þegar hann iðraðist þess að hafa rekið Ástu frá
sér, og stakan um hjörðina og rósina (Hjörðin mín er ekki öll; 1934:173)
er eins nærri einlægum tilfmningum og Bjartur kemst. En tengslin við
sálm Hallgríms sem hér birtast í orðunum „á snöggu augabragði“ gera
það að verkum að við mér blasir ný túlkunarleið og gervöll sagan breytir
um merkingu í mínum huga. íslenski einyrkinn verður allt í einu tákn-
gervingur dauðans og mér sýnist réttmætt að gera ráð fyrir að það hafi
verið skilningur höfundarins.12
Athugun á textanum sýnir að dauðinn er oft á dagskrá í sögunni og
oftast einmitt tengdur Bjarti. Sjálfur telur hann dauðann ekki til mark-
verðustu tíðinda né vandamála:
Dauðinn er þó aldrei nema sú skuld, sem við eigum öll að standa skil af, og engu
síður þið hér í fremra, hvort sem ykkur þykir betur eða ver. Það er aftur á móti
þetta svokallaða líf, sem mörgum hefir gengið lakara að samræma við budduna
sína. Þetta er alltaf að kvikna ... (1934:174).
Áður er nefnd endursögn Helga á orðum Fríðu um að „svona drepur
hann ykkur öll“. Mögnuð er umfjöllunin um slátrun kýrinnar - sem ein-
mitt leiðir til dauða Finnu, og nú er það hinn ágengi sögumaður annars
vegar, Helgi Guðbjartsson hins vegar, sem orða atburðinn. Fyrst sögu-
maðurinn:
Á þeirri stundu var öllu lokið fýrir Finnu í Sumarhúsum, þessari fámálugu söng-
elsku konu, sem hafði eignazt mörg börn fyrir sjálfstæði þjóðarinnar, en þó
einkum fyrir dauðann. Hún var góð. Hún átti vini með álfum. En hjarta hennar
hafði löngum barizt í kvíða. Mannlífið? Það var eins og mannlífið hnigi allt til síns
upphafs á þeirri stund. Hún seig í hné og hvarf til Hallberu gömlu í fullkominni
þögn, hún sáldraðist niður eins og lítilfjörlegt duft í hið visna skaut móður sinnar
(1934:417-418).
TMM 2005 • 1
65