Tímarit Máls og menningar - 01.02.2005, Síða 115
Leiklist
kynna þessar persónur betur í stað þess að bresta í söng? Hverjar voru aðstæður
þessa fólks áður en tjaldið er dregið frá? Hvers vegna fer þessi hópur saman yfir
hafið? Og gerðist ekkert annað á lífsleiðinni en að einhver þeim nákominn dó
tregafullum dauðdaga? Má vera að ástin hafi bankað upp á eða jafnvel að fólk
hafi skemmt sér með hinu og þessu? Hvað var það sem leikhópurinn vildi segja
leikhúsgestum með þessari sýningu?
Leikmynd Vytautasar er falleg, látlaus og vel unnin, en sama er ekki hægt að
segja um búninga Filippíu Elísdóttur. Þeir voru of eintóna og gerðu lítið fyrir
útlit sýningarinnar. Nokkrum sinnum brá leikstjórinn á það ráð að stilla leik-
hópnum upp eins og til að undirstrika stemninguna í verkinu, það átti að öllum
líkindum að ramma sýninguna inn, en hún er í heild of handahófskennd til að
þetta gagnist.
Nú má vel segja sem svo að áhorfandinn þurfi ekkert að fá fyrir hjartað í hvert
sinn sem farið er í leikhús, að til séu annars konar sýningar sem eigi frekar að
lýsa aðstæðum og það er alveg rétt. En það tókst ekki heldur í sýningu Leikfélags
Reykjavíkur að lýsa aðstæðum þannig að vel væri, því að áhorfandinn fékk sterk-
lega á tilfinninguna að það væri eitthvað bjagað við þessa heimsmynd. Það gæti
ekki verið að allt væri svona hræðilega ömurlegt.
Segja má að þessi skortur á persónusköpun hafi kristallast í lok sýningarinnar
þegar andlitsmyndum vesturfara er brugðið upp á leikmyndina, því þá fyrst
finnur áhorfandinn fyrir nálægð þessara persóna. Þá, og ekki fyrr en þá, gerir
áhorfandinn sér grein fyrir að þetta hafi verið raunverulegt fólk ... en þá er
sýningin bara búin.
Höfundum þessara skáldverka er enginn greiði gerður með þessum vinnu-
brögðum. Ekki áhorfendum heldur. Ég held að við verðum að óska effir því að
vandvirkni og löngun til að segja sögu fólks sé frumhvati handritshöfunda.
Skáldsögur og leikverk eru ekki einn og sami hluturinn og eiga ekki að vera það.
Því eigum við, sé ekki ákveðið fyrirfram hvaða sögu á að segja, að leyfa bókinni
að njóta vafans.
TMM 2005 • 1
113