Ársrit um starfsendurhæfingu - 2013, Page 74

Ársrit um starfsendurhæfingu - 2013, Page 74
74 www.virk.is UPPLÝSINGAR A Ð SE N D G RE IN möguleikanna sem það býður. Jafnframt lýstu þátttakendur því hvernig framkoma og orð verkstjórans höfðu jákvæð áhrif á líðan þeirra í starfi (Gunnarsdóttir og Björnsdóttir, 2003). Sambærilegar niðurstöður fengust úr rannsóknum á starfsumhverfi hjúkrunar á Landspítala, sem sýndu augljós tengsl stjórnunar við starfsánægju og starfsgetu, og verður þessum rannsóknum lýst hér á eftir. Hvatning deildarstjóra og innri starfshvöt Viðamikil rannsókn á starfsumhverfi hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra sem gerð var árin 2002 og 2003 meðal 695 hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra leiddi í ljós að þrátt fyrir álag í starfi mátu þátttakendur líðan sína góða og starfsánægju meiri en hafði komið fram í sambærilegum rannsóknum erlendis. Tölfræðileg úrvinnsla spurningalistans sem þátttakendur í rannsókninni svöruðu leiddi jafnframt í ljós að þeir þættir sem höfðu sterkust áhrif á líðan þátttakenda og starfsgetu voru að nægur fjöldi starfsmanna ynni verkin og sömuleiðis uppbyggileg samskipti, einkum við deildarstjóra. Það sem fólst í uppbyggilegum samskiptum við deildarstjóra var meðal annars hvatning til að þróast í starfi og að taka sjálfstæðar ákvarðanir í starfinu (Sigrún Gunnarsdóttir, 2006). Þegar nánar var rýnt í viðhorf þátttakenda með viðtölum kom í ljós að inntak starfsins og tækifæri til að vinna náið með skjólstæðingunum efldu innri starfshvöt, sem hafði jákvæð áhrif á líðan í starfi og starfsánægju. Niðurstöðurnar voru m.a. athyglisverðar í ljósi þess að á þessum tíma var samruni stóru sjúkrahúsanna nýafstaðinn og almennt mat að breytingunum hefði fylgt umtalsvert álag á starfsfólk. Í ljósi niðurstaðnanna var ályktað að innri starfshvöt væri mikilvæg til að efla ánægju starfsfólks, hefði jákvæð áhrif á líðan í starfi og væri nátengd því að hafa skýra sýn á tilgang starfsins. Jafnframt var ályktað að hvatning deildarstjóra hefði jákvæð áhrif á innri starfshvöt starfsfólksins og þar með líðan þess í starfi. Þetta gerist meðal annars með því að stjórnandi hvetur starfsmann til að nýta eigin þekkingu og hæfileika í starfinu og hvetur jafnframt til sjálfstæðis í starfi. Í ljósi þessa fer ekki á milli mála að stuðningur stjórnenda er meðal mikilvægra, verndandi þátta í starfi hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra á sjúkrahúsi. Árangursríkar stjórnunar- aðferðir og fjarvistir frá vinnu Niðurstöður nýlegrar viðtalsrannsóknar á Landspítala varpa enn frekara ljósi á gildi góðra stjórnunaraðferða deildarstjóra, en um var að ræða rannsókn á þáttum tengdum fjarvistum hjúkrunarfræðinga. Rannsóknin leiddi í ljós að fjarvistir, t.d. vegna veikinda, tengjast mati hjúkrunarfræðinga á inntaki starfsins og endurgjöf en einnig sérstaklega stjórnunarháttum hjúkrunardeildarstjóra. Hugrekki og hæfni deildarstjórans til aðgerða er þýðingarmikill þáttur til að skapa öryggi í starfi, stuðla að ánægju og góðri frammistöðu og til að lágmarka fjarvistir. Með hugrekki deildarstjóra er til dæmis átt við djörfung til að tala á hreinskilinn og uppbyggilegan hátt um starfsmannamál og um mikilvæga þætti sem móta starfsanda og viðmið á hverjum stað (Bryndís Þorvaldsdóttir, 2008). Þátttökurannsókn með deildarstjórum á Landspítala árin 2005–2007 undirstrikar á sama hátt gildi stuðnings í starfi og sýnir að með skipulögðum jafningjastuðningi og ígrundun eflast deildarstjórar í starfi. Niðurstöður rannsóknarviðtala sýndu að með jafningjastuðningi tókst deildarstjórum að njóta sín betur sem stjórnendur og skynja samstöðu í hópi deildarstjóra, sem hafði góð áhrif á líðan þeirra í starfi (Sigrún Gunnarsdóttir, 2008). Tvær nýjar rannsóknir sem gerðar voru hér á landi, önnur meðal sjúkraliða (Þóra Ákadóttir, 2012) og hin á hjúkrunarsviði FSA (Hulda Rafnsdóttir, 2012) staðfesta þessi tengsl og sýna að meðal mikilvægra þátta í starfsumhverfi með hliðsjón af vinnuverndarmálum er styðjandi og áreiðanleg framkoma næsta yfirmanns, sem til dæmis birtist í stefnufestu og vilja stjórnandans til að gefa starfsfólki tækifæri til að hafa áhrif á eigin störf. Einstakt jafnvægi stefnufestu og mildra stjórnunaraðferða er, samkvæmt þessum niðurstöðum, grunnur árangursríkrar stjórnunar sem tengist starfsánægju og vellíðan í starfi og jafnframt betri getu til að veita góða þjónustu. Að takast á við eril og álag Víða á vinnustöðum hefur hraði aukist undanfarin ár, til dæmis vegna kröfu um hagræðingu og vegna nýrrar tækni sem gefur æ fleiri möguleika til aukinna afkasta. Merki þessarar þróunar má meðal annars sjá í starfsumhverfi heil- brigðisþjónustunnar, þar sem verkefnum fjölgar um leið og gerð er krafa um að ljúka hverju verki á sem stystum tíma. Í þessu samhengi má benda á nýja rannsókn á Landspítala sem sýnir hversu erilsöm störf hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða eru. Störf á sjúkrahúsi geta falið í sér truflanir sem geta ógnað öryggi sjúklinga og jafnvel

x

Ársrit um starfsendurhæfingu

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Ársrit um starfsendurhæfingu
https://timarit.is/publication/1412

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.