Ársrit um starfsendurhæfingu - 2017, Page 10

Ársrit um starfsendurhæfingu - 2017, Page 10
atvinnurekendur séu tregari til að ráða inn nýja starfsmenn með skerta vinnugetu. Mikil ráðningarfesta og langur réttur til launa í veikindum á vinnumarkaði getur þannig haft áhrif á vilja atvinnurekenda í þessum efnum. Almennt miða aðgerðirnar við að byggja upp aðstæður þar sem það borgar sig fyrir atvinnurekendur að styðja starfsmenn sína við endurkomu til vinnu eins fljótt og unnt er ásamt því að stuðla að meiri sveigjanleika á vinnustaðnum og hvatningu til að ráða inn nýja starfsmenn með skerta starfsgetu. Hækkandi eftirlaunaaldur Hlutfallslega fleiri eldri einstaklingar en yngri fara á örorkulífeyri. Með hækkandi eftirlaunaaldri má búast við því að einstaklingum á örorkulífeyri muni fjölga. Þetta er staðreynd sem taka þarf tillit til. Það er hins vegar hægt að vinna á móti þessari þróun með aukinni vinnuvernd og heilsueflingu bæði á vinnumarkaði og í samfélaginu í heild sinni. Einnig getur aukinn sveigjanleiki við starfslok komið til móts við þá einstaklinga sem hafa getu til hlutastarfa á seinni hluta ævinnar þó þeir geti ekki unnið fullt starf. Tækniþróun og auknar kröfur á vinnumarkaði Samkvæmt rannsókn sem gerð var meðal öryrkja árið 2008 voru um 40% þeirra aðeins með grunnmenntun. Þetta má bera saman við tölur Hagstofu Íslands um menntunarstig en samkvæmt þeim voru árið 2008 31% fólks á aldrinum 25-64 ára aðeins með skyldunám eða minna. Á þessu eru ýmsar skýringar, bæði geta þau störf sem í boði eru verið erfiðari og eins hefur verið bent á að tækniþróun í ýmsum geirum hefur valdið því að störfin sem ekki er krafist neinnar menntunar fyrir eru orðin færri og einhæfari. Á móti þessu má benda á að tækniþróun hefur einnig búið til störf sem gefa einstaklingum með ýmsa sjúkdóma og skerðingar nýja og aukna möguleika á vinnumarkaði. Þannig hafa t.d. einstaklingar á einhverfurófi oft staðið sig mjög vel í sérhæfðum störfum í hugbúnaðargeiranum og aukin tækni eykur m.a. möguleika þeirra sem hafa mjög skerta sjón til að leysa ýmis verkefni á vinnumarkaði. Auknar kröfur til menntunar í mörgum störfum atvinnulífsins geta einnig orðið til þess að einstaklingar sem hafa átt erfitt uppdráttar í skólakerfinu eigi ennþá erfiðara með að fóta sig á vinnumarkaði. Störfin sem þeim bjóðast eru oft einhæf og erfið og það getur haft þau áhrif að þeir heltast frekar úr lestinni og fara á örorku ef við bætast aðrir erfiðleikar sökum sjúkdómsgreininga og heilsubrests. Sumir halda því jafnframt fram að kröfur atvinnulífsins til einstaklinga séu að aukast og að sama skapi verði minna og minna svigrúm fyrir þá sem geta ekki alla daga uppfyllt ýtrustu kröfur. Bent hefur verið á atvinnuauglýsingar í þessu sambandi þar sem gjarnan er auglýst eftir svo frábærum starfsmönnum að fáir geta speglað sig heiðarlega í þeim kröfum sem þar eru settar fram. Það fælir í burtu þá sem glíma við margskonar erfiðleika og heilsubrest – jafnvel þó þeir geti í raun lagt heilmikið af mörkum á vinnumarkaði. Skólakerfið og stuðningur í námi Ráðgjafar og sérfræðingar sem starfa fyrir VIRK hafa bent á að algengt sé að einstaklingar sem leita til VIRK eigi forsögu um erfiða skólagöngu og vanlíðan í námi. Þetta kemur einnig fram í skýrslu Félagsvísindastofnunar HÍ um stöðu ungs fólks á endurhæfingar- og örorkulífeyri þar sem 74% svarenda höfðu fundið fyrir kvíða og þunglyndi og um 58% höfðu litla trú á sér í grunnskóla. Einnig hafði yfir helmingur þátttakenda orðið fyrir einelti í grunnskóla. Nærri helmingur þátttakenda taldi sig hafa fengið lítinn eða engan stuðning í skóla frá starfsfólki og kennurum. Þessar niðurstöður benda til þess að hlúa þurfi betur að börnum í skólum hér á landi og auka aðgengi þeirra að fagaðilum eins og námsráðgjöfum, félagsráðgjöfum og sálfræðingum. Það kann hins vegar að vera skynsamlegt að skoða þessi mál út frá víðara sjónarhorni þar sem það kemur líka í ljós þegar gögn VIRK eru skoðuð að kennarar koma áberandi meira í starfsendurhæfingu en aðrar háskólamenntaðar stéttir. Einnig hefur komið í ljós að fleiri kennarar glíma við kvíða, andlegt álag og vefjagigt samanborið við aðra háskólamenntaða starfsmenn. Það er því ýmislegt sem bendir til þess að talsverður hópur bæði barna og kennara líði ekki nægilega vel innan skólakerfisins. Hvort orsökin liggur þar, annars staðar í samfélaginu eða í einhverju samspili milli skólakerfisins, fjölskyldunnar, breyttra uppeldisaðferða og annarra stofnana samfélagsins er erfitt að fullyrða um hér en full ástæða er til að skoða þetta frekar og leita lausna. Atvinnurekendur gegna lykihlutverki við að koma í veg fyrir að fjarvistir vegna heilsubrests þróist í átt til varanlegrar örorku. Það geta þeir gert með öflugum forvörnum, sveigjanleika og aðstoð við endurkomu starfsmanna til vinnu í kjölfar sjúkdóma eða slysa.“ 10 virk.is

x

Ársrit um starfsendurhæfingu

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Ársrit um starfsendurhæfingu
https://timarit.is/publication/1412

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.