Strandapósturinn - 01.06.1978, Blaðsíða 30
tréskóm, til dæmis var tekið upp úr þeim fyrir hæl og tábergi.
Yfirleður var ýmist Bereftleður úr gömlum sjóskóm, eða leður úr
húð af hesti eða kú, þetta yfirleður náði vel upp á miðja rist, en
svo lá það aftur fyrir hælinn og var þrengra að ofan svo tréskór-
inn héldist betur á fætinum.
Þegar leðrið var lagt á skóinn, var mjó reim úr svipuðu efni og
yfirleðrið lögð með undir naglahausana, þá rifnaði leðrið minna
við naglana og svo féll það betur að skónum svo samskeytin urðu
vatnsheld, leðrið var neglt á með smásaum og haft stutt bil á
milli naglanna.
Efnið í tréskóna var úr trjárótum er ráku á fjörur, fyrst var það
sagað og höggvið til þar til það tók að nálgast rétta skólögun, þá
var skórinn tálgaður með tálguhníf og að síðustu rifinn með
háfsroði, skorið var með bjúghníf upp úr honum fyrir hæl og
tábergi og það slípað með sama hætti og að utan.
Það var frekar seinlegt að smíða tréskó og það hefur máske átt
þátt í að minna var um þá en þörf var á, en nóg annað að starfa
hjá einyrkja bónda með mörg börn og svo var hitt, að okkur
krökkunum þótti erfitt að ganga á tréskónum, þeir voru harðir
og óþjálir að ganga á þeim og sérstaklega voru þeir óþægilegir ef
þurfti að fara að fé í bröttum skriðum og klettum, innanbæjar og
á túni voru þeir ágætir.
28