Strandapósturinn - 01.06.1978, Blaðsíða 33
einmitt hér að gefa nokkra lýsingu á persónuleika Kristínar.
Hún var kona mjög smá vexti, (ekki hærri en 150 cm), reyndar
var hún nokkuð bogin í baki frá því ég man hana fyrst, en hún
var þéttvaxin og kraftaleg og smávöxnu hendurnar hennar, sem
voru mikið bognar af hörðum átökum við æfilangt strit, voru
sterklegar og ótrúlega liprar. Hress og kát var hún í öllu dagfari
sínu og því oft glatt á hjalla þar sem Stína var nærstödd. En eitt
var það í fari Stínu, sem algjörlega einkenndi hana og öllum
hlýtur að vera minnisstætt, sem enn þá muna eftir henni. Hún
var svo frá á fæti að segja má að utanhúss hafi hún aldrei gengið,
hún hljóp, að minnsta kosti við fót. Innanhúss var hún einnig
mjög kvik í öllum hreyfingum og eldsnögg að hefjast handa með
hvert það verk er hún tók sér fyrir hendur, enda átti hún bágt
með að þola allt seinlæti og deyfð, mér er því ljóst að þegar Stína
var ung stúlka hlýtur hún að hafa verið lagleg (enda hefur mér
verið sagt svo), teinrétt og nett á fæti glaðleg og kvik í öllum
hreyfingum, menntun hafði Stína ekki mikla fremur en flest fólk
þessa tíma. Hún var vel stautlæs og gat skrifað nafnið sitt og var
nokkurnveginn sendibréfs fær. Góða eðlisgreind hlýtur Stína að
hafa haft, því hún gat oft verið mjög hnyttin í tilsvörum. Og eitt
er víst, hin erfiða lífsbarátta hennar hafði kennt henni í ríkum
mæli þau hyggindi sem í hag koma, eða eins og hún oft orðaði
það sjálf „Það er aumt að deyja ráðalaus á þurru landi“.
Ur því ég er nú farin að lýsa því hversu fótfrá Stína var, er rétt
að láta það fylgja að oft var hún kölluð „fljóta Stína“, og til
gamans vil ég geta þess að þá nafnbót mun hún hafa öðlast er
hún þreytti kapphlaup við hest er hét Spilandi og var eigandi
hans Jón Jörundsson á Reykjanesi. Spilandi þótti einn besti
hestur er þá var til í Víkursveit. Er þetta gjörðist var Stína ung
stúlka í Litlu-Ávík og mun kapphlaupið hafa farið fram frá
Reykjanesi að Litlu-Ávík eða öfugt. Jón hafði heyrt þess getið
hversu Stína var fljót að hlaupa og brá á gaman við hana hvort
hún héldi að hún hefði við honum Spilanda sínum. Stína sagðist
nú vart gjöra ráð fyrir því, en reyna mætti það þessa bæjarleið,
en áskildi sér rétt til að fara beint af augum, en Spilandi og Jón
götuna, fannst Jóni það sjálfsagt. Lögðu þau svo samtímis af stað
31
L