Strandapósturinn - 01.06.2012, Page 42
42
Þegar hann var horfinn inn, litum við hvor á aðra og hlógum,
þóttumst hafa unnið frækilegan sigur í þessari orrustu og kviðum
framtíðinni í engu.
Fólkið fór að tínast út úr hótelinu satt og ánægt, en okkar
magar voru léttir, aðeins morgunkaffið og brauð í þeim. Settust
allir hver í sitt sæti og satt var það hjá bílstjóranum að ekkert
þeirra var autt.
Horfðu svo farþegar forvitnir á er bílstjórinn hlóð nokkrum
póstpokaskjöttum aftan við sætið sitt. Benti hann okkur síðan að
koma inn og setjast, sem við gerðum fúslega glaðar og brosandi.
Ekki var nú sætið stöðugt, við urðum að ríghalda okkur í
bílstjórasætið, ég með vinstri hendi og Veiga með þeirri hægri.
Hófst nú ferðin. Þeir sem fóru veginn suður fyrir 60 árum
þurftu sannarlega ekki að láta sér leiðast, þeir gátu sem best talið
allar beygjurnar, krókana og lykkjurnar sem á veginum voru.
Við sátum svo neðarlega á gólfinu að við sáum ekki hvort næsta
beygja var til hægri eða vinstri, urðum að lesa það út úr hnakkasvip
elsku bílstjórans, það var eina útsýnið sem við höfðum.
Þetta hefði ekki verið sem verst ef strákar sem sátu í næsta sæti
aftan við okkur, hefðu ekki alltaf sparkað neðri pokunum fram,
svo stundum lá við að við snöruðumst aftur af. Hún bjargaði
okkur vestfirska þrjóskan, við vorum ákveðnar í að lafa í
sætisbakinu, jafnvel þótt við sætum í lausu lofti stund og stund.
En það var ekki ástúðlegt augnaráðið sem strákarnir fengu þegar
við vorum að hagræða posunum aftur undir rössunum á okkur.
Svo var það þetta með pilsin, svo að segja allt kvenfólk gekk í
pilsum og kápum, og sokkunum sem óhjákvæmilega fylgdu þeim
búningi, var haldið uppi með sokkaböndum að framan og aftan,
eins og tískan heimtaði og menn sjálfsagt muna. Við höfðum
alveg nóg að gera með lausu hendinni að halda pilsunum á
hnjákollunum svo alls velsæmis væri gætt, svo sannarlega hefði
mátt vera búið að finna upp sokkabuxurnar þá.
Svona hristumst við upp og niður, runnum til vinstri og til
hægri, til hægri og til vinstri. Ætluðum alveg að missa af
sætisbakinu og missa pilsin of hátt á leiðinni upp brekkurnar en
föðmuðum bæði sæti og bílstjóra á leiðinni niður.
Loks, eftir margar eilífðir, var komið til Blönduóss. Það var
forljótt þorp og samanstóð af moldarkofum og útihúsum í einum