Hugur - 01.01.2019, Síða 4
Hugur | 30. ár, 2019 | s. 4–8
Inngangur ritstjóra
Hugur lítur nú dagsins ljós í 30. sinn. Að þessu sinni er þema heftisins Saga. Undir
þessu þema birtast hér annars vegar textar um rannsóknir í heimspekisögu og
hins vegar greinar um tiltekna heimspekinga sem hafa verið fyrirferðarmiklir í
heimspekisögunni. Þá birtast hér fimm textar utan þema, þar á meðal tvær grein-
ar um líkamlega gagnrýna hugsun, og tveir bókadómar um bækur eftir íslenska
heimspekinga. Síðast en ekki síst er hér að finna viðtal sem Kristian Guttesen tók
við Kristján Kristjánsson, prófessor í heimspeki við Háskólann í Birmingham.
Kristján er virtur og afkastamikill fræðimaður með óvenjulegan fræðaferil sem
gaman er að glöggva sig á.
Til hvers erum við að rannsaka og fræðast um heimspekisöguna, um viðhorf
heimspekinga fyrri tíma til hinna og þessara álitamála? Þessu reynir Jonathan
Barnes að svara í tveimur textum sem Geir Þ. Þórarinsson þýddi fyrir Hug. Eitt
mögulegt svar er að heimspekisaga sé eins og hver önnur heimspeki – að hún sé
rannsökuð og lesin til að skilja betur þau viðfangsefni sem heimspekingar fyrri
tíma reyndu sjálfir að átta sig á. Annað svar er að heimspekisagan sé eins konar
hugmyndasaga, þar sem megináherslan er eða ætti að vera á því hvað varð til þess
að tiltekin heimspekileg hugmynd náði fótfestu og hvaða viðtökur hún hlaut á
sínum tíma. Barnes telur að hvorugt svarið sé rétt. Heimspekisaga snúist þess
í stað einfaldlega um að reyna að skilja hvað heimspekingar fyrri tíma höfðu
að segja. Heimspekisaga sé því hvorki hugmyndasaga né hefðbundin heimspeki,
heldur tilraun til að skilja hugsanagang tiltekinna heimspekinga sem uppi voru
fyrr á tímum.
Á undanförnum árum hefur orðið vitundarvakning meðal fræðimanna um að
framlagi kvenna og ýmissa jaðarsettra hópa til heimspekinnar hafi verið haldið
utan „kanónunnar“, þ.e.a.s. því safni af textum og höfundum sem eru álitnir
mikilvægastir í heimspekisögunni. Í greininni „Íslömsk heimspeki og vestræn
hugmyndasaga“, sem hér birtist í þýðingu Egils Arnarsonar, fjallar sænski hug-
myndasagnfræðingurinn Klas Grinell um stöðu íslamskrar miðaldaheimspeki í
þeirri hugmyndasögu sem háskólanemum er kennd. Grinell skoðar sérstaklega 12.
aldar heimspekinginn Suhrawardi, sem setti fram mjög áhrifamiklar hugmyndir
um hlutverk innsæisins í þekkingaröflun, og reynir að svara því hvers vegna ekkert
sé fjallað um Suhrawardi í yfirlitsritum um hugmyndasögu. Grinell gagnrýnir
meðal annars það viðhorf að heimspeki Suhrawardis sé ekki nægilega áhugaverð
til að fjallað sé um hana í yfirlitsverkum, og bendir meðal annars á að við getum
Hugur 2019-Overrides.indd 4 21-Oct-19 10:47:01