Hugur - 01.01.2019, Qupperneq 5
Inngangur ritstjóra 5
lært ýmislegt um platónska og aristótelíska hugsun með því að skoða hvernig
Suhrawardi bregst við þessum hugmyndum.
Annar texti sem hér birtist um heimspekinga fyrri tíma er eftir Eyjólf Kjal-
ar Emilsson, en Eyjólfur er einn af helstu sérfræðingum heimsins í heimspeki
ný-platonistans Plótinosar. Fyrir Hug 2019 hefur hann notið aðstoðar Kára Páls
Óskarssonar við að þýða eftir sig grein um hugmyndir Plótinosar um slæmsk-
una eða hið illa, „Kennisetning Plótinosar um efnið sem frumbölið í Níund I 8
(51)“. Greinin tekst á við þá þekktu ráðgátu hvernig nokkuð getur orðið slæmt í
heimspekikerfi Plótinosar. Vandinn er að Plótinos heldur því staðfastlega fram að
í raun og veru séu upptök allra hluta einn og sami hluturinn, það er að segja hið
góða. Hið góða, sem samkvæmt skilgreiningu er fullkomið, getur tæpast skapað
eitthvað sem er slæmt. Hvaðan kemur þá slæmskan? Í grein sinni svarar Eyjólf-
ur Kjalar þessari spurningu ítarlega og af yfirgripsmikilli þekkingu á plótinoskri
heimspeki.
Atli Harðarson fjallar svo um menntaspeki nýaldarheimspekingsins Johns
Locke í greininni „Að læra að vera frjáls: Það sem John Locke sagði um uppeldi
til sjálfstjórnar“. Í greininni leitast Atli við að leysa úr togstreitu sem virðist vera
til staðar milli hugsjónar Lockes um að allar manneskjur eigi að fá að vera frjálsar
annars vegar og svo hins vegar hugmynd hans um að fullorðnir eigi að innræta í
börnum góðar venjur, og þar með stjórna þeim að verulegu marki. Atli bendir á að
Locke hafi meðal annars skilið frelsishugtakið sem það að stjórnast af skynsam-
legri hegðun frekar en duttlungum eða tilviljanakenndum löngunum. Börn sem
ekki læra góðar venjur eiga á hættu að stjórnast af hinu síðarnefnda og verða því
síður frjáls í þessum skilningi orðsins.
Í Hug 2019 birtist einnig talsvert efni utan þema. Fyrst ber þar að nefna þýð-
ingu Snorra Rafns Hallssonar á greininni „Við flóttamenn“ eftir þýsk-ameríska
heimspekinginn Hönnu Arendt. Greinin er skrifuð út frá sjónarhóli gyðings sem
flúði frá Þýskalandi á tímum nasismans, bjó í ýmsum löndum Evrópu en settist að
lokum að í Bandaríkjunum. Þótt margt í greininni skírskoti til þessara sögulegu
aðstæðna á grein Arendt hiklaust erindi við okkur í dag, meðal annars vegna
þess að greiningu hennar á því hvernig flóttamenn missa réttindi sín og stöðu í
samfélaginu, og mæta svo skilningsleysi og fordómum í nýju landi, má hæglega
heimfæra upp á aðstæður flóttamanna frá Sýrlandi, Írak, Afganistan og fleiri ríkj-
um sem um þessar mundir leita hælis í ýmsum löndum Evrópu, þar á meðal hér
á Íslandi.
Önnur þýðing sem hér birtist er greinarkorn eftir spænska heimspekinginn
Antonio Casado da Rocha, „Thoreau og landslagsvísindi“, sem Ólafur Páll Jóns-
son þýddi úr spænsku. Segja má að Casado da Rocha sé „Íslandsvinur“, því hann
hefur komið nokkrum sinnum hingað til lands og verið gistikennari við Háskóla
Íslands. Í greininni leggur Casado da Rocha út af skrifum bandaríska heimspek-
ingsins Henrys Davids Thoreau um landslag í bókinni Walden og veltir fyrir sér
stöðu landslagsins í upplifun okkar og skynjun. Eitt af því sem gerir grein Casados
da Rocha áhugaverða fyrir íslenskan lesendahóp er að hann tengir saman hug-
Hugur 2019-Overrides.indd 5 21-Oct-19 10:47:01