Hugur - 01.01.2019, Blaðsíða 19
„Mér fellur núorðið betur við hlutverk Sansjós Pansa …“ 19
fyrir þennan gestaskara. Ég ólst upp við það að umræður um listir (ekki síst bók-
menntir), heimspeki og stjórnmál væru óaðskiljanlegur þáttur mannlífsins og ég
man að það varð mér talsvert áfall þegar ég áttaði mig á því að þetta væri ekki
plagsiður á öllum heimilum. Þegar gestakomum fækkaði tók pabbi upp þann
sið að lesa skáldverk og ævisögur upphátt á kvöldin – alveg þangað til ég var á
menntaskólaaldri. Við lásum t.d. allar Íslendingasögurnar og þættina frá upphafi
til enda. Ég var farinn að hugsa og skrifa á forníslensku á tímabili.
Pabbi var ekki módernisti og hugmyndin um listnautn sem uppskrúfaðan
fagurkerahátt var honum framandi. Hans eigin skáldskapur er mjög siðferðilegur;
þá á ég við alvöru kveðskap hans (s.s. hið fræga „Slysaskot í Palestínu“) en ekki
dægurlagatextana (svo sem „Vor í Vaglaskógi“) sem hann orti sér til lífsviðurværis.
Það síaðist einhvern veginn inn í mig frá blautu barnsbeini að hlutverk bók-
mennta væri að fræða okkur um mannleg lífbrigði og lífskosti. Aftur varð það mér
áfall þegar ég áttaði mig á að ekki allir skildu listir slíkum siðferðilegum skilningi.
En ég hef haldið áfram að trúa þessu og hef reynt að ýta undir vin minn David
Carr og aðra heimspekinga sem fært hafa heimspekileg rök að hinum siðferðilega
skilningi, þó að ég hafi ekki skrifað mikið um hann sjálfur. Mér finnst hann ein-
hvern veginn of sjálfsagður – of hvínandi sannur – til að vera rökstuðnings þurfi!
Ég sakna þess að hafa ekki lesið nógu mikið af nýjum bókmenntum síðasta
áratuginn eða svo; ég hef verið svo upptekinn við verk mín í Birmingham og
lestur fræðirita. Ég stend mig að því að vitna aftur og aftur í verk sem ég las á
unglingsárunum, en það er ósanngjarnt gagnvart nýjum höfundum og samtíðinni
sem þeir hljóta að tengja sig betur við.
Gengur ekki mannkostamenntun einmitt út á það að efla siðferðilegan skilning nem-
enda á öllum viðfangsefnum, óháð því hvers kyns þau eru (eins og t.d. nýjum bók-
menntum)? Er hér ekki um sömu nálgun að ræða?
Jú, en púkinn svamlar í smáatriðunum, eins og Bretar segja. Doktorsnemi minn
lenti nýlega í vandræðum með aristótelískt fyrirmyndaverkefni í skóla í Sádí-Ar-
abíu vegna þess að nemendur þar gátu ekki tengt sig við siðferðilegar fyrirmyndir
sem ekki voru arabískar. Þær sköpuðu ekki sporgönguþrá (zelos). Á sama hátt
gæti vel verið að nemendur í framhaldsskóla á Íslandi eða Englandi gætu tengt
sig betur við fyrirmyndir úr nútímanum eða a.m.k. úr bókmenntum sem þeir
þekkja, eins og Harry Potter, en úr bókum sem ég las sem unglingur og hreifst af.
Íhlutanir í skólum eru mjög háðar aðstæðubundnum blæbrigðum.
Ég hef verið þess heiðurs aðnjótandi að heimsækja hinn nýstofnaða skóla, The Uni-
versity of Birmingham School. Viltu fræða okkur aðeins um tilurð og uppbyggingu
hans?
Já, við urðum þess heiðurs aðnjótandi að fá að stofna sameiginlegan (gjaldfrjálsan)
grunn- og framhaldsskóla sem rekinn er í samráði við Háskólann í Birmingham,
á svipuðum forsendum og Æfingaskóli KHÍ í gamla daga. Mannkostir eru rauður
þráður í öllum kennslugreinum skólans og kennarar eingöngu ráðnir til starfa
ef þeir geta sýnt fram á hvernig þeir ætla sér að flétta mannkosti inn í kennslu
Hugur 2019-Overrides.indd 19 21-Oct-19 10:47:02